Hoppa yfir valmynd
1. október 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Hagfræðistofnun rannsakar fjölgun öryrkja

Fréttatilkynning nr. 25/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur í samráði við Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, ákveðið að fela Tryggva Þór Herbertssyni forstöðumanni Hagfræðistofnunar að grafast fyrir um ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Rannsóknin verður unnin í samvinnu við Tryggingastofnun ríkisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið. Hagfræðistofnun skilar heilbrigðismálaráherra skýrslu um málið í janúar 2005.

Ráðist er í þessa rannsókn vegna örrar fjölgunar öryrkja undanfarin misseri og til að skýra hvað veldur þeim miklu breytingum, sem komu í ljós í athugun sem gerð var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í sumar þegar áhrif aldurstengdu örorkubótanna voru metin.

Í athuguninni kom fram að öryrkjum fjölgaði um tæplega 40 af hundraði á fimm árum frá 1998 og heildarbætur vegna öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega hækkuðu á sama tíma úr rúmlega fimm milljörðum króna (1998) í rúmlega tólf milljarða (2003), eða um 7 milljarða króna.

11761 voru öryrkjar í fyrra, en árið 1998 voru þeir 8443. Hér er miðað við þá öryrkja sem áttu rétt á greiðslum frá TR 1. desember bæði árin. Fjölgunin á fimm árum varð liðlega 39% Árið 1998 voru 4987 konur öryrkjar en 7150 árið 2003. Fjölgunin varð um 43% á fimm árum. Á sama tíma fjölgaði körlum í hópi öryrka um 33%. Þeir voru 3456 árið 1998 en fimm árum síðar, árið 2003, voru þeir 4611. Árið 1998 voru flestir öryrkjar á aldursbilinu 50 til 65 ár, en síðan hafa orðið breytingar á aldurskiptingu öryrkja og kynjahlutföllum. Konum í hópi yngstu öryrkjanna hefur til dæmis fjölgað mjög mikið hlutfallslega síðustu fimm árin. 63% fleiri konur eru öryrkjar á aldrinum 25 til 29 ára en þær voru fyrir fimm árum svo dæmi sé tekið. Þetta kemur fram í gögnum sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið hefur látið vinna í sambandi við könnun á örri fjölgun öryrkja undanfarin ár.

Í gögnunum kemur fram að 60% fleiri konur eru í hópi öryrkja á aldrinum 40 til 44 ára, 73% fleiri konur á aldrinum 45 til 49 ára og 61% fleiri konur á aldrinum 50 til 54 ára en fyrir fimm árum. Þá hefur körlum í hópi öryrkja á þessum aldri sömuleiðis fjölgað verulega. Á aldursbilinu 40 til 44 ára er fjölgunin 49%, á aldursbilinu 45 til 49 ára er fjölgunin á fimm árum 64% og á aldursbilinu 50 til 54 ára er fjölgun karla sem eru öryrkjar 41%.

Öryrkjum hefur fjölgað mjög misjafnlega eftir landshlutum á umræddu tímabili. Þannig fjölgar körlum í hópi öryrkja minnst á Austurlandi (20%), í Reykjavík (28%), á Norðurlandi eystra (29%) og á Vesturlandi (21%), en mest fjölgar körlum í hópi öryrkja á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur (43%), í Norðurlandi vestra (51%), á Suðurlandi (49%) og í hópi öryrkja sem búa erlendis (61%). Konum sem eru öryrkjar fjölgar hlutfallslega minnst í Reykjavík (35%) og á Norðurlandi vestra (41%) og er það eina landssvæðið þar sem körlum fjölgar meira en konum. Síðustu fimm árin er mest fjölgun kvenna sem eru öryrkjar á Austurlandi (54%), á Norðurlandi eystra (48%), á Suðurlandi (64%), á Vestfjörðum (58%) og í hópi öryrkja sem búa erlendis (67%).


pdf-takn Töluleg gögn um fjölgun öryrkja eftir aldri og landssvæðum (töflur)

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
1. október 2004

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta