Hoppa yfir valmynd
4. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umræður á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra 4. október 2004

Ávarp umhverfisráðherra

Herra forseti, góðir Íslendingar.

Landið, sagan og tungan sameina okkur Íslendinga. Við erum stolt þjóð, meðvituð um að fara vel með þessar gersemar og skila þeim til komandi kynslóða.

Vægi umhverfismála hefur vaxið mjög í stjórnmálaumræðu. Augljóst er að þau eiga eftir að fá enn meiri athygli á næstu árum. Menn gera sér æ betur grein fyrir því hve samofin umhverfismál og velferðarmál eru. Velgengni fyrirtækja ræðst í auknum mæli af því hversu vel þau hugsa um umhverfisáhrif starfseminnar og við erum sífellt að sjá betur að ástand umhverfismála er vaxandi áhrifaþáttur á rekstur og útgjöld samfélagsins.

Hér skal minnt á að um 40% af þeim gerðum sem teknar hafa verið inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið varða umhverfismál.

Þegar staða okkar Íslendinga í umhverfismálum er borin saman við stöðu margra annarra vestrænna þjóða, blasir við að við erum um margt öfundsverðir. Hér er hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins það hæsta sem þekkist, mengun er tiltölulega lítil og í landinu er að finna einstaka náttúru og víðerni fjarri byggð sem nútímamaðurinn sækir í vaxandi mæli til afþreyingar. Þessa sérstöðu ber okkur að nýta bæði til að styrkja samkeppnisstöðu landsins í framtíðinni en um leið sýna öðrum þjóðum fordæmi í umhverfisvernd og framkvæmd sjálfbærrar þróunar.

Náttúruverndaráætlun 2004 til 2008 var samþykkt hér á þinginu í vor. Mikil vinna er nú framundan á vegum umhverfisráðuneytisins og stofnana þess að hrinda henni í framkvæmd.

Nefnd skipuð fulltrúum þingflokka skilaði síðast liðið vor tillögum um stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Niðurstöður sýna að það er verkefni sem í dag getur skapað góðan arð og efnahagslegan ávinning ef rétt er á málum haldið. Þau áform sem unnið er að með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs vitna um stórhug og metnað og eru raunar af stærðargráðu sem ekki þekkist í öðrum Evrópulöndum. Skaftafellsþjóðgarður, eftir stækkun, verður einn og sér stærsti þjóðgarður Evrópu.

Afar mikilvægt er að ljúka Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma svo að heildarsýn fáist yfir alla helstu virkjanakosti í landinu og áhrif þeirra á umhverfið. Á þann hátt verða til grunnupplýsingar sem gera okkur fært að samræma vernd og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar á sjálfbæran hátt í framtíðinni.

Á næsta ári verður á umhverfisþingi fjallað um framkvæmd metnaðarfullrar stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun frá árinu 2002. Mikilvægt er að fulltrúar allra sviða samfélagsins, atvinnulífs, einstaklinga og stjórnvalda komi að undirbúningi og Umhverfisþing 2005 treysti í sessi sjálfbæra þróun í landinu. Ég legg áherslu á að þar verði vandað til verka.

Á alþjóðavettvangi verða varnir gegn mengun hafsins áherslumál okkar sem fyrr, en mikil þörf er á því að þjóðir heims taki fastar höndum saman um aðgerðir gegn mengun frá landi sem víða um heim veldur nú vaxandi hnignun í vistkerfi hafsins með afar óæskilegum áhrifum á efnahag og samfélög fjölmargra ríkja.

Íslensk stjórnvöld hafa sýnt forystu á þessu sviði á alþjóðavettvangi og er mikilvægt að halda því áfram. Stefna Íslands í málefnum hafsins, sem ríkisstjórnin samþykkti síðast liðið vor, leggur þar góðan grundvöll.

Íslendingar fullgiltu Kyoto – bókunina árið 2002 og nú eru vaxandi líkur á því að hún komi til fullra framkvæmda árið 2008. Í vetur gefum við skýrslu um stöðu loftslagsmála hér á landi til skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, en skuldbindingar Íslands taka gildi árið 2008. Nú er að ljúka stórri úttekt á loftslagsbreytingum á vegum Norðurskautsráðsins Niðurstöður þeirra rannsókna verða formlega lagðar fram á ráðherrafundi í Reykjavík nú í nóvember og munu efalaust vekja athygli alls heimsins.

Umhverfisráðuneytið er yngsta ráðuneyti stjórnarráðsins, stofnað árið 1990. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ríkisstjórn frá 1991 og tekið þátt í því að efla þennan málaflokk og styrkja ráðuneytið með því að færa þangað verkefni.

Vert er að rifja upp að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrstur flokka fyrir því að koma umhverfismálum undir einn hatt innan stjórnarráðsins í kjölfar starfs nefndar sem Geir Hallgrímsson þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins skipaði árið 1975. Formaður nefndarinnar var Gunnar G. Schram heitinn, prófessor og síðar þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Frumvarp þessa efnis var lagt fram á þingi árið 1977 en náði ekki fram að ganga.

Það er ánægjulegt að Sjálfstæðisflokkurinn tók við ráðuneytinu í september í haust. Í minn hlut kemur að axla þá ábyrgð sem embættinu fylgir. Forveri minn hefur unnið gott starf og ég tek við góðu búi. Að gefnu tilefni bið ég þingmenn og landsmenn alla að efast ekki um það eina stund að ég geri mér fulla grein fyrir alvörunni sem við blasir og hversu þýðingarmikið er fyrir heill þjóðar og heims að trúlega sé staðið að þeim stóru verkum sem vinna þarf í þessum efnum.

Umhverfismálin skipta óendanlega miklu máli fyrir velferð þjóðarinnar. Ég mun nálgast það ábyrgðarmikla hlutverk sem mér er falið af virðingu, varfærni og auðmýkt.

Góðar stundir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta