Hoppa yfir valmynd
8. október 2004 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Samtaka fiskvinnslustöðva 8. október 2004

Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva 8. október 2004.

Ágætu fundarmenn!

Síðastliðið vor var óskað eftir því við mig að ég færi fyrir viðskiptasendinefnd í ferð sem skipulögð var af Útflutningsráði til Seattle og Kodiak eyju í Alaska nú í september. Ellefu íslensk fyrirtæki tóku þátt í sendinefndinni og buðu þau öll upp á þjónustu við sjávarútveginn og er gaman að geta þess að meðal fyrirtækjanna voru tveir bankar sem undirstrikar útrásarhug íslenskra fyrirtækja. Markmið ferðarinnar var að efla enn frekar tengsl landanna á sviði sjávarútvegs en bandarísk sjávarútvegsfyrirtæki hafa tekið miklum breytingum á undanförnum árum og hafa viðskipti landanna á þessu sviði verið að aukist jafnt og þétt, bæði hvað varðar viðskipti með sjávarafurðir og ekki síst með vélbúnað og hátækni fyrir fiskvinnslu og útgerð. Þar hafa fyrirtæki tileinkað sér nýjustu- og öflugustu tækni í fiskvinnslu og byggt upp mikla þekkingu sem snýr að öllum verkferlum og vöruvöndun.

Í ferðinni gafst mér tækifæri til að kynna mér starfsemi fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækja. Í einu þeirra fiskvinnsluhúsa sem ég skoðaði var hægt að vinna allt upp í 1.500 tonn af fiski á sólarhring. Þar var jafnframt fiskurinn allur nýttur og var mjöl- og surimi vinnsla hluti af heildarframleiðsluferlinu. Þessu til samanburðar má nefna að frystihús ÚA vann 150 tonn á sólarhring þegar mest var. Þá þótti mér merkilegt til þess að vita að í áhöfn tæplega 500 tonna togara sem veiðir Alaskaufsa eru einungis fimm manns.

Ferð þessi var lærdómsrík fyrir mig og vonandi hefur hún skilað þeim fyrirtækjum sem þátt tóku í ferðinni góðum árangri.

Það er staðreynd að erlendar fiskvinnslur eru sífellt að veita okkur harðari samkeppni á öllum sviðum framleiðslunnar. Ýmsar skýringar kunna að vera á því en ein þeirra er sú að mörg íslensk fyrirtæki lifa á því að koma þekkingu okkar í sjávarútvegi á framfæri og selja fiskvinnslum víða um heim upplýsingar um okkar eigin framleiðsluaðferðir. En um leið og við erum fús til þess að flytja okkar þekkingu úr landi þurfa íslensk fyrirtæki að vera dugleg að afla sér þekkingar annars staðar frá. Sérstaða okkar fer minnkandi, við búum í alþjóðlegu umhverfi þar sem upplýsingar fljóta hindrunarlítið á milli aðila. Það hefur því sjaldan eða aldrei verið nauðsynlegra fyrir okkur að halda vöku okkar en einmitt nú. Greinin verður því að búa við stöðugt umhverfi, fyrirtækin hafa einfaldlega ekki efni á að eyða dýrmætum kröftum sínum í að hafa áhyggjur af heimatilbúnum vandamálum í rekstri sínum.

Allt frá því að fiskveiðistjórnunarkerfið var tekið upp hefur það gengið í gegnum stöðugt þróunarferli. Miklar breytingar hafa verið gerðar á því í gegnum tíðina og nýverið hafa gengið í gegn breytingar sem taka mið af því að auka sátt um kvótakerfið og festa það þar með í sessi. Ég geri mér eðlilega grein fyrir að það verður aldrei náð hinni fullkomnu sátt en einhversstaðar verða menn að mætast. Sumar þær breytingar sem gerðar hafa verið eru í andstöðu við greinina og ekki endilega til þess fallnar að efla fyrirtækin ef til skamms tíma er litið. Sem dæmi þá þótti sjálfsagt að binda hámarks heildarkvótaeign við 12% á fyrirtæki. En þegar löggjafinn ætlaði að setja 15% hámarkseign markaðsráðandi fyrirtækja ljósvakamiðla ætlaði allt að ganga af göflunum. En nú er mál að linni og ákveðin niðurstaða komin hvað fiskveiðistjórnunina varðar. Nú þurfa fyrirtæki, hvort sem þau eru í vinnslu eða útgerð, að geta treyst á stöðugt umhverfi og þau verða að fá það athafnarými sem þarf til að mögulegt sé að reka þau út frá viðskiptalegum forsendum.

Ég hef lagt áherslu á það áður hér á þessum vettangi að ég telji nauðsynlegt að umræða um sjávarútvegsmál snúist ekki eingöngu um kvótakerfið. Slík umræða er allt of takmörkuð og kemur okkur lítt áfram í þeirri viðleitni að efla og þróa íslenskan sjávarútveg. Vöxtur íslensks sjávarútvegs tengist nýjungum í greininni, ný störf verða til í tengslum við nýjungar í vinnslu og nýtingu sjávarafurða. Það var slík hugsun sem var höfð að leiðarljósi þegar sjávarútvegsráðuneytið ákvað að skipa nefnd um aukið virði sjávarfangs. Í framhaldi af niðurstöðum nefndarinnar var AVS sjóðurinn settur á fót og er það núna eitt af megin stefnumálum ráðuneytisins að auka enn frekar verðmæti þess sjávarfangs sem að landi berst.

AVS sjóðurinn hefur nú starfað í um 2 ár og eru verkefni hans af margvíslegum toga og snúa meðal annars að fiskeldi, gæðum, líftækni, markaðssetningu og vinnslu. Sjóðurinn hefur veitt styrkti til um 30 verkefna fyrir um 74 milljónir kr., 2003 og á yfirstandandi ári er búið að styrkja 25 verkefni fyrir samtals um 81 milljón króna en sjóðurinn hefur úr 120 milljónum að spila og því má reikna má með að verkefnum eigi eftir að fjölga nokkuð áður en árið er úti. Í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 200 milljónum króna í AVS sjóðinn og það er trú mín að greinin geti nýtt sér þennan stuðning til að flýta enn frekar fyrir þróun og nýjungum í vinnslu sjávarafurða.

Þróunarvinna tekur tíma og því er kannski vart við því að búast að við sjáum mikinn árangur af starfi AVS fyrst til að byrja með. Engu að síður erum við þegar farin að uppskera í kjölfar úthlutana úr sjóðnum. Í því sambandi er skemmtilegt að segja frá því að AVS styrkti áhugavert verkefni varðandi nýtingu á tegund sem flestir héldu að væri ónýtanleg en þetta er „Vinnsla á íslenskum sæbjúgum". Nú hefur verið komið á fót fyrirtæki um þetta verkefni sem er með aðsetur á Grundarfirði. Sæbjúgu hafa aldrei verið nýtt hér á landi áður en þessi dýrategund hefur verið þekkt matvara meðal margra Asíuþjóða. Eins og gefur að skilja þá þarf að mörgu að huga við veiðar og vinnslu nýrra tegunda, en framvindan í verkefninu hefur verið góð, búið að senda fjölda sýnishorna til kaupenda erlendis og hafa viðbrögðin verið jákvæð þó auðvitað þurfi sífellt að lagfæra þætti í vinnslunni til að mæta sérstökum óskum kaupenda. Erlenda vinnslutækni var ekki hægt að yfirfæra að öllu leyti þar sem íslensku sæbjúgun eru að nokkru leyti frábrugðin þeim sem þegar er verið að vinna. Nú er að baki mikil þróunar- og markaðsvinna og er verkefnisstjóri verkefnisins bjartsýnn á að góður grundvöllur sé fyrir nýtingu sæbjúgna þó enn sé að mörgu að hyggja. En vonandi verður innan tíðar hægt að tala um að ný tegund hafi bæst í flóru íslenskra sjávarafurða.

Annað dæmi um verkefni sem við sjáum nú þegar að er að skila sér í auknum tekjum inn í sjávarútveginn er verkefni sem unnið er af Marorku og er hönnun á búnaði til að draga úr orkunotkun og mengun fiskiskipa. Verkefnið fékk ítarleg umfjöllun í Morgunblaðinu ekki alls fyrir löngu.

Ef við horfum til einstakra flokka AVS þá hafa hæstu úthlutanir farið til fiskeldis og er mikill hugur í fyrirtækjum á því sviði enda er það mikilvægt fyrir okkur að eldið geti orðið öflug atvinnugrein í framtíðinni. Skynsamlega hefur verið á málum haldið þar sem stigið hefur verið varlega til jarðar kunnátan hlaðist upp jafnt og þétt. Við ætlum okkur ekki að verða eftirbátar annarra þjóða í þessum efnum en eins og staðan er nú þá eru ýmsir sem hafa lagt mikið undir í þessari atvinnugrein. Sú mikla fiskeldisþjóð, Norðmenn láta sitt ekki eftir liggja og stefna á að framleiða 100.000 tonn af þorski innan 8 ára. Þá erum við að sjá öfluga samkeppni frá löndum sem eru hafa verið okkur fjarlæg fram til þessa eins og t.d. Chile. Fyrir ykkur sem stundið fiskvinnslu skiptir hráefnið gríðarmiklu máli og þá bæði örugg öflun þess og jöfn og góð gæði. Á því sviði getur fiskeldið komið afar sterkt inn og á síðustu árum hefur sjávarútvegsráðuneytið beitt sér fyrir átaki til að auka eldi á sjávarfiski.

Fiskeldi á sér töluverða sögu hér á landi en var lengi vel nær einskorðað við eldi ferskvatnsfisks; lax og bleikju. Gekk þar á ýmsu. Hvað eldi sjávarfiska varðar; á lúðueldi sér alllanga sögu hér á landi og hefur okkur tekist að ná ákveðinni forystu á því sviði á alþjóðavettvangi. Á allra síðustu árum hefur áhugi víða um heim aukist mjög á eldi hvítfisks en þar er einmitt um að ræða þann fisk sem hvað mest neysla er á í heiminum. Þannig hefur hvítfiskurinn örugga stöðu á mörkuðunum nú þegar. Hjá okkur og helstu nágrannaþjóðum er það þorskurinn sem er hvítfisktegund númer eitt og málið snýst fyrst og fremst um í eldi sjávarfiska.

Við uppbyggingu á þorskeldinu höfum við gætt þess að klífa hamarinn með þeim hætti að ná öruggri fótfestu hverju sinni áður en næsta skref er tekið. Þannig höfum við lagt áherslu, nú til að byrja með, á svokallað áframeldi þar sem villtur fiskur fangaður og alinn í kvíum til slátrunar. Jafnframt höfum við komið á stað rannsóknastarfi sem miðar af því að ná fram kynbættum eldisstofni þorsks.

Vitaskuld hefur ráðuneytið sem slíkt ekki staðið fyrir þessu starfi með öðrum hætti en þeim að koma upp reglu- og eftirlitsumhverfi sem geri greininni fært að vaxa og dafna á eigin forsendum og um leið að ýta undir rannsókna- og þróunarstarf meðal annars í gegnum AVS sjóðinn og með úthlutun sérstaks kvóta í þessum tilgangi. Ábyrgð og framvinda öll í atvinnurekstrinum hvílir hins vegar á herðum fyrirtækjanna sjálfra enda fer best á því.

Nú þegar eru að koma fram vísbendingar um að við Íslendingar séum á réttri leið í þessu starfi og var ánægjulegt að sjá því slegið upp á forsíðu Morgunblaðsins síðastliðinn sunnudag, 3. október sl., að íslenskur eldisþorskur hafi slegið í gegn, eins og það var orðað. Og vel að merkja hér var um að ræða fisk úr áframeldi, því enn erum við ekki komnir með í framleiðslu fisk af kynbættum eldisstofni sem ræktaður er í aleldi. Þegar þar að kemur getum við gert enn betur því þá munum við vera með stofn með seinan kynþroska, hámarks holdgæði og mikinn vaxtarhraða, sem sagt frábæran vinnslufisk. Í áframeldinu safnast hins vegar ómetanleg þekking og reynsla á sviði fóðrunar og meðferðar. Ég bind því miklar vonir við framvindu fiskeldisins á komandi árum og veit raunar að margir hér inni eru á sama máli enda eru drjúg tengsl á milli samtaka ykkar og Landssambands fiskeldisstöðva. Það verður hins vegar aldrei of oft varað við of mikill bjartsýni.

Ágætu fundarmenn!

Fiskvinnsla verður sífellt flóknari, markaðurinn gerir mikla kröfur og þær breytast ört. Auk þess koma til auknar kröfur opinberra stofnana erlendis frá og þá má ekki gleyma upphlaupum ýmissa öfgasamtaka sem hreinlega hafa lifibrauð af því að valda uppnámi og er þá oft á tíðum beitt óvönduðum meðulum. Nýjar óraunhæfar kröfur og óvæntar uppákomur geta stórskaðað útflutning sjávarfangs. Hver af þeim sem hér eru man ekki eftir mjölfárinu á sínum tíma þar sem minnstu munaði bannað yrði að nota fiskmjöl í dýrafóður. Með því að koma hratt og örugglega á framfæri upplýsingum í samstarfi við önnur ríki tókst að koma í veg fyrir algert bann, en því miður var engu að síður bannað að nota fiskmjöl í fóður jórturdýra sem hafði mjög slæm áhrif á markaðinn. Binda menn nú vonir við að í ljósi þess að tekist hefur að endurbæta próf á íblöndun kjötmjöls í fóður þá muni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aflétta þessu banni fljótlega sem mun væntanlega styrkja markaðinn á ný.

Þetta dæmi sýnir okkur hvernig einstakar stjórnvaldsaðgerðir geta skaðað útflutningstekjur okkar með beinum hætti ekki síst ef við höfum ekki upplýsingar á reiðum höndum, þá stöndum við varnarlaus. Neikvæð umfjöllun í fjölmiðlum getur á stuttum tíma eyðilagt jákvæða ímynd afurða sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Útflutningstekjurnar eru því háðar því að við tryggjum það að geta sýnt fram á öryggi sjávarafurða okkar og við verðum að geta með óyggjandi hætti sýnt fram á að þær séu öruggar með hliðsjón af þeim lögum, reglugerðum sem gilda á hverjum tíma svo og kröfum markaðarins. Gildir þar einu hvort um er að ræða ferskan fisk, unnar afurðir eða fiskeldi.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins skilaði af sér skýrslu sem kynnt var í sumar og hægt er að nálgast á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Í henni koma fram leiðir til að tryggja öryggi útflutningstekna. Mikilvægt að upplýsingasöfnun um óæskileg efni í sjávarafurðum Íslendinga sé gerð á skipulegan hátt og tryggt að á hverjum tíma séu til nýjar upplýsingar um efnainnihald þeirra. Megin niðurstöður þeirra mælinga sem nú liggja fyrir sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið.

Að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins hóf Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins árið 2003 að mæla innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum, bæði afurðum til  manneldis og afurðum lýsis- og mjöliðnaðar. Upplýsingarnar munu nýtast þeim  sem vinna við að selja sjávarafurðir  til að meta það hvernig afurðir standast  þau  mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og viðskiptaþjóðum Íslendinga,  og sem stjórnvöld og söluaðilar sjávarfangs þurfa að geta upplýst kaupendur og neytendur um.

Í dag verða niðurstöður mælinganna birtar á netinu, nánar tiltekið á

heimsíðum sjávarútvegsráðuneytisins og hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.

Þá er rétt að geta þess að til þess að tryggja frekari uppbyggingu á þessu sviði er í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni. Viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs munu fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem verið er að taka í notkun um þessar mundir.

Fyrir nokkrum árum var talsverð umræða um nauðsyn þess að vinna siðareglur sjávarútvegsins. Gerð þeirra hefur hins vegar tafist vegna vinnu við stefnumótun tengdum umhverfismerkingum sem mikið hafa verið til umræðu. Í ljósi þess hvernig umhverfismerkingarnar hafa þróast þar sem heildsölufyrirtæki, verslana- og veitingahúsakeðjur hafa sjálf tekið upp sínar eigin merkingar og staðla þá er mikilvægt að koma vinnu við siðareglur sjávarútvegsins af stað á ný. Sjávarútvegsráðuneytið og Fiskifélag Íslands hafa því tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið og er nú vinna við gerð siðareglna sjávarútvegsins hafin. Byggt verður á siðareglum FAO um ábyrgð í fiskimálum, nefnt Code of Conduct for Responsible Fisheries, sem samþykktar voru árið 1995. Í formála siðareglna FAO kemur fram að þar eru settar grunnreglur og alþjóðlegir staðlar fyrir ábyrga hegðun í sjávarútvegs- og fiskveiðimálum.

Ég tel mikilvægt að íslenskur sjávarútvegur komi sér saman um reglur fyrir atvinnugreinina sem byggi á siðareglum FAO og taki tillit til aðstæðna og sérstöðu Íslands. Til þess hefur greinin sameiginlegan vettvang sem er Fiskifélag Íslands. Þannig getur greinin sjálf skapað sér sýn á þá fjölmörgu mikilvægu þætti sem siðareglunum er ætlað að ná til og eru í vaxandi mæli til umræðu innan sjávarútvegsins um allan heim.

Siðareglur íslensks sjávarútvegs, sem atvinnugreinin í heild sinni sameinast um, styrkja málefnalega stöðu Íslands á vettvangi málefna hafsins. Þær tryggja enn frekar ábyrga umgengni um auðlindir hafsins og muna þannig enn frekar efla íslenskan sjávarútveg.

Eitt sem mig langar að minnast hér í lokin er ný reglugerð um vigtun sjávarafla. Síðast liðið vor kynnti ráðuneytið á netinu drög að nýrri reglugerð um vigtun sjávarafla sem fela í sér töluverðar breytingar frá núgildandi reglugerð. Markmiðið með hugmyndinni að breytingunum er að taka tillit til nýrrar tækni sem gerir okkur kleift að einfalda reglurnar til að auðveldara sé að fylgja  þeim. Athugasemdir bárust frá Samtökum fiskvinnslunnar um ýmis atriði  og í ljósi þeirra hefur ráðuneytið ákveðið að fara yfir málið meðal annars í samstarfi við ykkur. Nauðsynlegt er að aðlaga reglurnar að starfsemi mismunandi fyrirtækja, fiskvinnslustöðva og fiskmarkaða og að sem mest sátt sé um málið.

Góðir fundarmenn!

Eins og ég hef rakið hér að framan þá verða viðskipti með fiskafurðir sífellt flóknari, í því felast ákveðnar ógnanir en um leið tækifæri. Við höfum alla burði til þess að búa yfir öflugasta upplýsingakerfi veraldar á þessu sviði. Annað sem styrkir stöðu okkar er alþjóðleg viðurkenning á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem gefur okkur forskot á margar samkeppnisþjóðir okkar, trúverðugleiki kerfisins er orðinn hluti af markaðssetningu stórfyrirtækja. Lokaorð mín eru því; gerum okkur grein fyrir ógnunum en spilum framliggjandi sókn á fiskmörkuðunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta