Stjórnmálasambandi komið á við þrjú ríki, sem eiga land að sjó
Þann 6. október sl. undirritaði Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, fyrir Íslands hönd, yfirlýsingar um stofnun stjórnmálasambands við þrjú ríki, sem öll eiga það sameiginlegt að eiga fengsæl fiskimið, sem ekki eru nýtt sem skyldi.
Palá
Hið fyrsta þeirra er Kyrrahafseyríkið Palá. Það ríki fagnaði 1. október sl. 10 ára sjálfstæðisafmæli, en fram til þess var það verndargæsluríki Bandaríkjanna. Palá samanstendur af 200 eyjum í hinum svokallaða Karólínueyjaklasa í Vestur-Kyrrahafi. Íbúar þess eru innan við 20.000 talsins og efnahagsuppbygging enn verulega háð erlendri aðstoð, einkum frá Bandaríkjunum. Heildarlandsvæði eyjanna er innan við 500 ferkílómetrar. Náttúrufegurð þar er rómuð, einkum hin frægu kóralrif. Hækkandi yfirborð sjávar vegna aukinna hlýinda í heiminum kann að ógna framtíð margra þessara eyja.
Lítilsháttar sjávarútvegur er stundaður en lítil fiskvinnsla. Erlend fiskiskip stunda veiðar í lögsögu Palá, mörg hver ólöglega. Stjórn Palá hefur komið á framfæri ósk um að fá að læra fiskveiðistjórn, fiskveiðar og fiskvinnslu af Íslendingum og vill gjarnan stofna til samstarfsverkefna við íslensk fyrirtæki á þessum sviðum.
Á myndinni eru Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og Stuart Beck, sendiherra og fastafulltrúi Palá hjá S.þ. að lokinni undirritun yfirlýsingar um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna, í viðurvist Bjarna Sigtrygssonar, sendiráðunautar og Susan Shamroy, ritara við fastanefnd Palá.
Máritanía
Máritanía er tæpra þriggja milljón manna ríki á vesturströnd Norður-Afríku. Það er 10 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli, en stærstur hluti þess liggur í Sahara-eyðimörkinni en byggð er að mestu meðfram Senegal fljótinu í suðri og með Atlantshafsströndinni í vestri.
Máritanía er íslamskt lýðveldi, fyrrum frönsk nýlenda, en nú í mjög nánu sambandi við arabaríkin. Efnahagur er þar bágborinn og landið í neðsta fjórðungi lista yfir meðaltal landsframleiðslu allra ríkja heims. Útflutningur járngrýtis hefur lengi verið mikill, en verð lágt og tekjur því óverulegar. Vonir eru bundnar við vinnslu olíu af hafsbotni.
Mestar útflutningstekjur landsins hafa verið af sölu veiðileyfa til erlendra ríkja, en Máritanía býr yfir einhverjum gjöfulustu fiskimiðum í heimi. Þær veiðar hafa þó ekki skapað velsæld í landinu og að sögn sendiherra Máritaníu hjá S.þ. er áhugi stjórnvalda á því að breyta fyrirkomulagi fiskveiða og stefna að fiskvinnslu í landinu. Mikill áhugi er á samstarfi við íslensk stjórnvöld og íslensk sjávarútvegsfyrirtæki um þá þróun.
Á myndinnu eru Hjálmar W. Hannesson, sendiherra, og Dah Ould Abdi, sendiherra Máritaníu að undirrita yfirlýsinguna. Að baki þeim standa Bjarni Sigtryggsson, sendiráðunautur og Moctar Alaoui, sendiráðunautur Máritaníu.
Erítrea
Þriðja ríkið, Erítrea, á mikla strandlengju að Rauðahafinu og þar eru einnig gjöful fiskimið, sem landsmenn njóta að minnstu, því þar er stunduð rányrkja af margra landa hálfu og engin landhelgisgæsla. Erítrea hefur eins og ofangreind ríki komið þeirri ósk á framfæri að fá aðstoð Íslands við uppbyggingu fiskveiðistjórnar, sjávarútvegs og fiskvinnslu. Skilyrði til erlendra fjárfestinga eru góð í landinu, erlendir starfsmenn njóta þar öryggis, þrátt fyrir að átök hafi verið milli Erítreu og Eþíópíu um landssvæði, sem lengi var deilt um, en friðarsamkomulag var undirritað árið 2000. Íbúar Erítreu eru tæpar sex milljónir og þjóðin telst vera ein hin snauðasta í heimi. Erítrea var fyrrum nýlenda Ítalíu, en féll undir Eþíópíu í lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Landið heimti ekki sjálfstæði fyrr en fyrir rúmum áratug.
Á myndinni eru Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og Ahmed Tahir Baduri, sendiherra og fastafulltrúi Erítreu hjá S.þ. að undirrita yfirlýsinguna. Viðstaddir voru sendiráðunautarnir Bjarni Sigtryggsson og Tesfa Alem Seyoum.