Hoppa yfir valmynd
14. október 2004 Matvælaráðuneytið

Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda

Fréttatilkynning

  Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra ávarpaði Landssamband smábátaeigenda á aðalfundi félagsins sem haldinn var á Grand Hótel í dag. Ráðherra fjallaði í ræðu sinni um stöðu íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins út frá samanburði sem Charles Clover blaðamaður á Daily Telegraph gerði í bók sinni The End of the Line, how overfishing is changing the world and what we eat, sem mætti þýða sem "Undir það síðasta, áhrif ofveiði á heimsmyndina og hvað við borðum". Í bókinni leggur höfundur mat á kosti og galla ólíkra fiskveiðistjórnunarkerfa og gefur þeim einkunn. Niðurstaða hans var sú að gefa stjórn fiskveiða við Ísland 8 í einkunn, sem er hæsta einkunn sem gefin er í bókinni fyrir stjórnun á stofnum sjávarfiska. Ein af þremur megin skýringunum sem höfundur gefur er umframveiði dagabáta. Áréttaði sjávarútvegsráðherra að þetta ætti ekki við lengur þar sem búið væri að leggja niður dagakerfið og gæti höfundur þess vegna hækkað einkun Íslands upp í níu.

Þá fjallaði ráðherra um kvótasetningu dagabáta. Rakti Árni aðdraganda málsins ítarlega. Sagði hann meðal annars frá því að fulltrúar Landssambands Smábátaeigenda hefðu í viðræðum við sig hafnað sérstakri skoðanakönnun meðal eigenda dagabáta í þeim tilgangi að athuga hvort afstaða dagakarla til dagakerfisins hefði breyst frá síðasta aðalfundi. Meðal annars af þeim ástæðum var útgerðum dagabáta gefinn kostur á að velja á milli þess að vera áfram í dagakerfi með gólfi, eða fara inn í krókaflamark þegar mælt var fyrir frumvarpinu í upphafi. Þetta breyttist síðan í meðförum sjávarútvegsnefndar í samráði við Ls og sjávarútvegsráðuneytið, niðurstaðan varð svo sú að allir fóru í krókaflamark.

Ráðherra kom einnig inn á nýjar áherslur heildsölufyrirtækja og verslana- og veitingahúsakeðja þar sem þessir aðilar eru farnir að horfa til fiskveiðistjórnunar í einstökum ríkjum við stefnumörkun fyrirtækjanna við kaup á fiski. Jafnframt að þessir aðilar upplýstu viðskiptavini um stefnu sína meðal annars með auglýsingaherferðum og sérstökum merkingum á þeim fiski sem í boði er. "Sú viðurkenning sem fellst í því að við stundum sjálfbærar veiðar getur nýst á mörgum sviðum markaðssóknar" sagði ráðherrann. Einnig vakti sjávarútvegsráðherra athygli fundarmanna á samstarfi ráðuneytisins við stærstu matvörukeðju heims, Carrefour í Frakklandi, um að veita sérstakar upplýsingar um efnainnihald og gæði íslensks fisks.

 

Ræðan í heild

 

Sjávarútvegsráðuneytið 14. október, 2004

 

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta