Hoppa yfir valmynd
14. október 2004 Innviðaráðuneytið

Ráðstefna Alþjóðaferðamálaráðsins

Á ráðstefnunni verður sérstök kynning á vottun Snæfellsness samkvæmt viðmiðum Green Globe 21.

Dagana 17.-20. október næstkomandi stendur Alþjóðaferðamálaráðið fyrir ráðstefnu í Tékklandi þar sem fjallað verður um samstarf opinberra aðila og einkageirans í vottun á sjálfbærri ferðaþjónustu. Fyrir forgöngu Ferðamálaráðs Íslands verður þar sérstök kynning á vottun Snæfellsness samkvæmt viðmiðum Green Globe 21.

Markmið ráðstefnunnar er að fjalla um vottun á vöru, fyrirtækjum og áfangastöðum, kanna hvaða kerfi hafa náð árangri og hvort hægt sé að stefna að samþjöppun á markaðnum svo vottunarmerkjum fækki.

Alþjóðaferðamálaráðið kallaði eftir umsóknum um kynningu á vottunarverkefnum sem hafa gefið góðan árangur. Ferðamálaráð Íslands, sem stutt hefur undirbúning að vottun GREEN GLOBE 21 á Snæfellsnesi, sendi inn umsókn til ráðsins. Lagði ferðamálastjóri til að verkefnið, sem er stærsta frumherjaverkefni í sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi, yrði kynnt á ráðstefnunni í samvinnu við vottunarsamtökin GREEN GLOBE 21.

Ísland er ekki aðili að Alþjóðaferðamálaráðinu og því var það mikill heiður að verkefni þess skyldi vera valið til kynningar á ráðstefnunni. Lítur Ferðamálaráð svo á að með þessu verkefni sé Ísland að skipa sér í forystusveit sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu á heimsvísu.

 

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Ferðamálaráðs.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta