Hoppa yfir valmynd
14. október 2004 Forsætisráðuneytið

Verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu

Forsætisráðuneyti hefur skipað verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu. Skipunin er í samræmi við stefnu ríkisstjórnar Íslands frá febrúar 2004 sem ber yfirskriftina: Auðlindir í allra þágu - Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingsamfélagið 2004-2007. Þar er lögð rík áhersla á verkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu en um þau verkefni segir meðal annars:

"Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög leggi áherslu á rafræn viðskipti og rafræna stjórnsýslu. Í því felst m.a. að opinberar stofnanir veiti rafræna þjónustu hvarvetna þar sem hún leiðir til hagræðingar og bættrar þjónustu við almenning og atvinnulíf. Áhersla verði lögð á að hægt verði að nýta tiltölulega einfaldan tæknibúnað í samskiptum við stjórnvöld og að nýir samskiptamiðlar verði nýttir. Ávallt þarf þó að vera fyrir hendi val þannig að þeir sem ekki geta notað tæknina geti notið hefðbundinnar þjónustu áfram. Á vegum forsætisráðuneytis verði sett upp sérstök verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu sem hafi það verkefni árin 2004-2007 að aðstoða og hvetja opinberar stofnanir til að vinna að þessu meginmarkmiði."

Helstu verkefni verkefnisstjórnar um rafræna stjórnsýslu verða að:

  • hafa frumkvæði um, skilgreina og hrinda í framkvæmd verkefnum á sviði rafrænnar stjórnsýslu og hafa samráð við ráðuneyti, ríkisstofnanir og hagsmunaaðila utan stjórnsýslunnar, atvinnulíf og sveitarfélög eins og við á
  • móta tillögur og skipuleggja verkefnið um rafræna þjónustuveitu
  • vinna að stöðlun og samræmingu í rafrænum samskiptum stjórnsýslunnar
  • verða tengiliður stjórnsýslunnar við verkefnið um tilraunasamfélagið
  • gera tillögur um stofnun vinnuhópa um afmörkuð viðfangsefni
  • gera tillögur um endurskoðun laga og reglugerða þar sem eru hindranir fyrir rafrænum viðskiptum í lögum, reglugerðum og starfsháttum opinberra aðila

Verkefnisstjórnin er skipuð fulltrúum tilnefndum af fjármálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, Ríkisskattstjóra og Tryggingarstofnun ríkisins auk fulltrúa forsætisráðuneytis sem jafnframt er formaður.

Eftirtaldir aðilar sitja í verkefnisstjórn um rafræna stjórnsýslu:

  • Halla Björg Baldursdóttir, forsætisráðuneyti, formaðu
  • Bragi Leifur Hauksson, Tryggingastofnun ríkisins
  • Haraldur Bjarnason, fjármálaráðuneyt
  • Jónas Ingi Pétursson, ríkislögreglustjóra
  • Ævar Ísberg, Ríkisskattstjóra

Varamenn eru:

  • Guðbjörg Sigurðardóttir, forsætisráðuneyti
  • Ásdís Ingibjargardóttir, dómsmála og mannréttindaráðuneyti
  • Jens Þór Svansson, Ríkisskattstjóra
  • Hermann Ólason, Tryggingastofnun ríkisins
  • Ásdís Káradóttir, fjármálaráðuneyti

Um rafræna stjórnsýslu, sjá hér

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta