Fréttapistill vikunnar 9. - 15. október
Upplýsingakerfi þarf að sníða að þörfum sjúklinga
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, setti í dag ráðstefnu Skýrslutæknifélags Íslands um upplýsingakerfi í heilbrigðisþjónustunni. Lagði ráðherra meðal annars áherslu á mikilvægi þess að beina athyglinni í þessu sambandi að sjúklingunum og hvernig þróun upplýsingakerfa heilbrigðisþjónustunnar verði best sniðin að þörfum þeirra. Sagði ráðherra að það væru ekki aðeins stjórnendur, fagfólk og tæknimenn sem ráða ættu ferðinni, samræmi yrði að ríkja milli þessara aðila og þarfa þeirr sem upplýsingakerfin ættu að þjóna. Ráðherra fór í ávarpi sínu síðan yfir þau verkefni sem ráðuneytið hefur staðið fyrir er hrundið af stað á þessu sviði og lýsti yfir áhuga á að Íslendingar skipuðu sér á bekk með þeim þjóðum sem fremst standa á þessu sviði.
Ávarp ráðherra...
Nýr línuhraðall á Landspítala
Geislameðferðardeild krabbameinslækninga á Landspítala - háskólasjúkrahúsi hefur fengið nýjan línuhraðall. Tækið var kynnt fyrir Jóni Kristjánssyni, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, stjórnendum og viðkomandi starfsmönnum spítalans við athöfn á LSH í dag og tók ráðherra af þessu tilefni línuhraðalinn formlega í notkun. Hann er framleiddur í Bandaríkjunum og kemur í stað eldra tækis sem þjónað hefur við geislameðferð krabbameinssjúklinga frá árinu 1989. Línuhraðallinn gamli var keypt til landsins á sínum tíma í kjölfar átaks Lions hreyfingarinnar á Íslandi sem safnaði fyrir honum með sölu rauðrar fjaðrar árið 1985. Nýja tækið kostar um 170 milljónir króna. Hátækniþróun í geislameðferð hefur leitt til bætts árangurs í baráttu við krabbamein, í lengri lifun sjúklinga og minni aukaverkunum þar sem heilbrigðum vef er nú hlíft betur en áður hefur verið unnt.
Fréttatilkynning LSH...
Segulómtæki sett upp á Akureyri
Segulómtækið sem keypt var fyrir myndgreiningardeild FSA verður tekið í gagnið 1. nóvember nk. Eftir mikinn undirbúning og breytingar á húsnæði, rann upp stóra stundin í gær þegar segulómtækið var híft inn í húsið og því komið fyrir á myndgreiningardeildinni. Þetta er mikið tæki, segullinn í því er milli 5 og 6 tonn á þyngd og því þurfti ýmsar tilfæringar til að koma tækinu fyrir og eru tæknimenn frá framleiðanda nú að koma tækinu fyrir, tengja það og leggja lagnir að því.
Starfandi heilbrigðismálaráðherra Kína sækir Ísland heim
Dr. Gao Qiang, starfandi heilbrigðismálaráðherra Kína, er þessa dagana í opinberri heimsókn hjá heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu ásamt embættismönnum úr kínverska ráðuneytinu. Tilefni heimsóknarinnar tengist samkomulagi ráðuneytanna um samstarf og samvinnu á sviði heilbrigðismála sem undirritað var fyrir nokkrum árum. Hefur Dr. Gao Qiang átt gagnlegar viðræður við Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og embættismenn ráðuneytisins um sameiginleg hagsmunamál á sviði heilbrigðisþjónustu. Kínverski ráðherranna og föruneyti lýstu einnig sérstökum áhuga á að kynna sér starfsemi heilbrigðisstofnana hér á landi og hafa af því tilefni heimsótt Landspítala – háskólasjúkrahús, Heilsugæslustöðina Seltjarnanesi, og Reykjalund og kynnt sér starfssemi stofnananna. Kínverski ráðherrann heimsækir sömuleiðis Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og kynnir sér stöðu heilsugæslu í dreifbýli nyrðra.
Nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar
Nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar tók gildi 1. september síðastliðinn en Alþingi lögfesti samninginn í vor. Samningurinn kemur í stað eldri samnings frá 1992 og gildir milli Íslands, Svíþjóðar, Danmerkur og Finnlands. Nánar er sagt frá efni samningsins á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
Nánar...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
15. október 2004