Hoppa yfir valmynd
15. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Matvæladagur MNÍ á Hótel Nordica Reykjavík þann 15. október 2004.

Sigríður Anna Þórðardóttir setur Matvæladag MLÍ á Hótel Nordica, 15.10.2004
100_6171l

Setningarávarp Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra,

Ágætu gestir.

Mér er það mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag á árlegum matvæladegi félagsins. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig Matvæla- og Næringafræðingafélag Íslands hefur með matvæladegi sínum leitast við að efla umræðu meðal almennings um öryggi matvæla.

Á liðnu sumri samþykktu matvælaráðherrar Norðurlanda svonefnda Akureyrarályktun. Í henni er lögð áhersla á að neytendur eigi rétt á öruggum og hollum matvælum sem unnin eru úr afurðum úr hreinu umhverfi og á sjálfbæran hátt.

Til að auka öryggi og gæði matvæla er lögð áhersla á að innra eftirlit matvælafyrirtækja og opinbert matvælaeftirlit byggist á áhættumati. Mikilvægt er að vakta umhverfið og fylgjast með gæðum matvæla á öllum stigum framleiðslu. Í þessu sambandi er bent á nauðsyn þess að þróa vegvísa um umhverfis- og matvælamál sem geti nýst við áhættumat.

Til að ná settum markmiðum um sjálfbæra matvælaframleiðslu sem felur einnig í sér heilbrigði og velferð dýra, ásamt gæðum og öryggi matvæla þarf löggjöf um matvælaöryggi að byggjast á meginreglum um áhættumat.

Vegna sívaxandi alþjóðlegra viðskipta með matvæli er einnig mikilvægt að þeir þættir umhverfis og matvæla sem fylgjast þarf með séu vel skilgreindir og samræmdir á milli ríkja. Sama gildir um aðferðir við áhættugreiningu og margt sem lýtur að eftirliti með framleiðslu meðferð og dreifingu matvæla.

Við Íslendingar byggjum samfélag okkar að verulegu leyti á framleiðslu og vinnslu matvæla og útflutningur þeirra stendur undir stórum hluta af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Því eru öflugar matvælarannsóknir mikilvægar bæði hvað varðar vöruþróun og öryggi matvæla. Matvælarannsóknir eru forsenda þess að auka verðmæti afraksturs auðlinda okkar til sjávar og sveita. Því er ástæða til að nefna það sérstaklega hér að í Akureyrarályktuninni er ákveðið að efla norrænt samstarf um matvælarannsóknir.

Matvæladagur á Hótel Nordica 15.10.2004Rannsóknir á sviði öryggis matvæla og samsetningar mataræðis innanlands eru ekki síður mikilvægar þar sem lýðheilsa er í húfi og því þurfum við að leggja aukna áherslu á rannsóknir, nægilega vöktun framleiðslunnar og neyslukannanir. Einnig verðum við að tryggja að sömu gæða- og öryggiskröfur og upplýsingaskylda séu gerðar til matvæla sem fara á innanlandsmarkað og þeirra sem flutt eru út. Á vegum norræna samstarfsins um matvæli hefur verið þróaður fyrsti flokkur vegvísa um sjálfbæra þróun um matvæli í nýútkominni skýrslu sem ber heitið "Sustainable development of food safety - New bearings in the Nordic countries". Þessir vegvísar eru gagnlegt verkfæri til að fylgjast með og meta hvort þróunin er í rétta átt og þá má jafnframt nýta við áhættumat í framtíðinni.

Allar aðgerðir okkar til að auka öryggi matvæla snúa í raun að því að auka eða í það minnsta viðhalda lífsgæðum. Til þess að varðveita lífsgæði er ennfremur nauðsynlegt að greina vandamál er snerta tengsl milli lífsstíls, mataræðis og heilbrigðis.

Norrænu embættismannanefndinni um matvæli hefur nýlega verið falið að vinna drög að norrænni framkvæmdaáætlun um betri heilsu og lífsgæði með hliðsjón af mataræði og hreyfingu, m.a. vegna vaxandi vandamála sem tengjast offitu. Nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum vorið 2005.

Þá er í Akureyrarályktunninni stefnt að útgáfu á Norrænum ráðleggingum um mataræði 2004 en í þeim eru settar fram leiðbeiningar um fæðusamsetningu og næringarefni sem byggðar eru á vísindalegum grunni og nú eru einnig settar þar fram ráðleggingar um líkamsrækt og mataræði. Við álítum að norrænu ráðleggingarnar séu mikilvægt verkfæri til að skipuleggja mataræði sem stuðli að heilbrigði og fyrirbyggi sjúkdóma. Mikilvægt er að áherslur og aðgerðir hins opinbera taki mið af því að móta heibrigðan lífstíl þ.e.a.s. að fá fólk til að borða hollan mat. Í þeirri viðleitni þarf að legja meiri áherslu á börnin.

Í framhaldi af nýrri löggjöf Evrópusambandsins um matvæli, sem senn verður tekin upp í EES samninginn verður nauðsynlegt að gera breytingar á matvælalögum hér á landi. Áherslubreytingar í nýrri matvælalöggjöf Evrópusambandsins snúa að því að setja neytendavernd í forgang, skerpa á ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila. Sá meginþráður sem ný matvælalöggjöf Evrópusambandsins byggir á er að tryggja rekjanleika matvæla frá haga til maga og tryggja gegnsæa málsmeðferð og upplýsingar til neytenda.

Um nokkun tíma hafa íslensk stjórnvöld hugað að uppstokkun skipan matvælamála. Ríkisstjórnin hefur kannað samþættingu og samstjórn matvælaeftirlits í landinu sem í dag heyrir undir þrjú ráðuneyti: landbúnaðar-, sjávarútvegsráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Frumvarp sem einfaldar og bætir matvælaeftirlit með því að fella það undir eitt ráðuneyti var kynnt á Alþingi í byrjun árs 2003. Ég er þess fullviss að einföldun og aukin skilvirkni matvælaeftirlitsins til samræmis við framkvæmd þessara mála á Norðurlöndum og víðar gerir gott matvælaeftirlit í landinu enn betra.

Innleiðing nýrra Evrópskra reglna á matvælasviðinu í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið kallar einnig á uppstokkun núverandi matvælaeftirlits hér á landi. Þessar breytingar verða meginverkefni okkar á matvælasviði á næstu misserum. Mikilvægt er að fram fari opin umræða og kynning á þessum áformum í nánu samráði við sveitarfélögin og fyrirtækin í landinu. Eg vil hvetja ykkur næringar- og matvælafræðinga til virkrar þátttöku í þeim efnum.

Ég vil að lokum óska félaginu velfarnaðar á komandi árum og vænti sem fyrr góðrar samvinnu.

Ég segi ráðstefnu þessa setta.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta