Hoppa yfir valmynd
15. október 2004 Utanríkisráðuneytið

Opnun sendiskrifstofu í Namibíu

Ráðuneytisstjórarnir Samuel Gôagoseb og Gunnar Snorri Gunnarsson undirrita samninginn
Undirritun samnings um þróunarsamvinnu

Utanríkisráðuneytið og Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) hafa gert umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Windhoek að sendiskrifstofu Íslands í Namibíu. Gunnar Snorri Gunnarsson, ráðuneytisstjóri,opnaði sendiskrifstofuna formlega í dag, 15. október.

Umdæmisskrifstofur Þróunarsamvinnustofnunar í Úganda og Malaví voru gerðar að sendiskrifstofum Íslands sl. sumar. Helsta markmiðið með breytingu umdæmisskrifstofa ÞSSÍ í sendiskrifstofur Íslands er að efla tengsl við samstarfslönd Íslands í þróunarsamvinnu enn frekar og styrkja stöðu umdæmisskrifstofa ÞSSÍ og starfsmanna þeirra gagnvart stjórnvöldum. Jafnframt munu umdæmisstjórar ÞSSÍ öðlast diplómatísk réttindi sem gerir þeim auðveldara að annast samskipti og sinna störfum sínum á vettvangi þróunarsamvinnu.

Umdæmisstjórar hljóta titil staðgengils sendiherra (chargé d´affaires ad interim), en sendiherra Íslands gagnvart ríkjunum verður eftir sem áður staðsettur í Mósambík. Umdæmisstjóri ÞSSÍ í Namibíu er Gísli Pálsson, en sendiherra Íslands er Benedikt Ásgeirsson.

Þróunarsamvinna Íslands og Namibíu hófst árið 1990 þegar landið fékk sjálfstæði og fyrsti rammasamningur ríkjanna var undirritaður í janúar 1991. Ísland hefur því átt þróunarsamstarf við Namibíu mun lengur en við önnur samstarfslöndí þróunarmálum. Í upphafi var einkum lögð áhersla á verkefni í sjávarútvegsgeiranum en á seinustu árum hefur stuðningur við félagsleg verkefni farið vaxandi. Stuðningur við sjómannafræðslu hefur lengi verið helsta verkefni Þróunarsamvinnustofnunar í landinu, en íslenskir kennarar hafa starfað við uppbyggingu sjómannaskólans í Walvis Bay síðan árið 1994. Þá hefur ÞSSÍ veitt ráðgjöf við yfirstjórn fiskimála í landinu. Í félagslegum verkefnum hefur verið lögð áhersla á menntun kvenna og velferð barna. Stuðningur við þessi verkefni, semeru nú í fjórum borgum á vesturströnd Namibíu, hófst fyrir tíu árum.

Samhliða þróunarsamstarfi Íslands og Namibíu sköpuðust töluverð viðskiptatengsl milli landanna og um tíma voru til staðar þrjú fyrirtæki á sviði sjávarútvegs í Namibíu sem Íslendingar áttu eða voru rekin í samvinnu við namibíska aðila. Eitt íslenskt fyrirtæki er nú starfandi í Namibíu.



Ráðuneytisstjórarnir Samuel Gôagoseb og Gunnar Snorri Gunnarsson undirrita samninginn
Undirritun samnings um þróunarsamvinnu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta