Hoppa yfir valmynd
19. október 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskóli Íslands sameinast

Undanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður menntamálaráðuneytisins, fulltrúa Verslunarráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og stjórnenda Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands um stofnun nýs háskóla með samruna HR og THÍ.

Undirritun samnings um sameiningu HR og THÍUndanfarnar vikur hafa staðið yfir viðræður menntamálaráðuneytisins, fulltrúa Verslunarráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins og stjórnenda Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands um stofnun nýs háskóla með samruna HR og THÍ. Þeim viðræðum hefur nú lokið með samkomulagi um stofnun einkahlutafélags sem taka mun yfir starfsemi beggja skólanna.

Fram að þessu hefur Háskólinn í Reykjavík verið rekinn af Verslunarráði Íslands og Tækniháskóli Íslands verið ríkisháskóli. Hluthafar í einkahlutafélaginu eru Verslunarráð Ísland, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins. Félaginu verður ekki ætlað að skila eigendum sínum fjárhagslegum arði.

Sjö manna stjórn verður skipuð yfir einkahlutafélaginu sem jafnframt mun gegna hlutverki háskólaráðs hins nýja skóla.

Við sameininguna verður til næststærsti háskóli landsins með öfluga tengingu við íslenskt atvinnulíf sem ætlað er að marka skólanum sérstöðu á komandi árum. Stefnt er að því að starfsemin verði endanlega sameinuð á næsta sumri og að nemendur innritist í hinn nýja háskóla frá og með skólaárinu sem hefst haustið 2005.

Auk núverandi viðfangsefna er fyrirhugað að taka upp nám í kennslufræði og verkfræði við hinn nýja skóla. Núverandi nemendur HR og THÍ eiga rétt á að ljúka námi sínu í samræmi við þær skuldbindingar sem skólarnir hafa stofnað til.

Með þessum nýja háskóla er stigið þýðingarmikið skref í átt til sterkari tengingar íslensks atvinnulífs við háskólastarf hér á landi, meðal annars til að styrkja samkeppnisstöðu beggja aðila á komandi árum. Sérstök áhersla verður lögð á að auka áhuga ungs fólks á raunvísindum og tæknigreinum og tryggja að gæði menntunar á þeim sviðum standist alþjóðlegan samanburð. Hvorttveggja er forsenda framþróunar og aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Eftirspurn eftir tækninámi hefur vaxið hratt á síðustu árum og mjög mörgum sem sótt hafa um skólavist í THÍ á síðustu árum hefur verið vísað frá. Aukin áhersla og framboð á verkfræði- og tæknimenntun er í samræmi við ályktanir Vísinda- og tækniráðs en hlutfallslega færri hafa stundað slíkt nám hér á landi en í þeim ríkjum sem almennt eru höfð til viðmiðunar í slíkum samanburði.

Með sameiningu viðskiptafræðideilda beggja skólanna opnast einnig tækifæri til hagræðingar og öflugri kennslu í senn. Háskólinn mun bjóða upp á allt það nám sem þegar hefur verið heimilað við núverandi skóla. Að auki verður boðið upp á MS-gráðu í verkfræði og nám í kennslufræði sem og frekara framhaldsnám eftir aðstæðum og nánara samkomulagi við menntamálaráðuneytið. Einnig verður boðið upp á sérhæft undirbúningsnám, diplóma- og viðbótarnám eftir aðstæðum og stuðlað að eflingu símenntunar í samvinnu við ýmsa aðila sem vinna að þeim málefnum.

Samkvæmt viljayfirlýsingu sem menntamálaráðherra og aðstandendur skólans hafa undirritað mun menntamálaráðuneytið beita sér fyrir framlögum til skólans vegna kennslu í samræmi við reglur ráðuneytisins um fjármögnun háskóla. Við háskólann verða einnig stundaðar rannsóknir og er stefnt að því að framlag ríkisvaldsins vegna rannsókna hins nýja skóla fari stigvaxandi til ársins 2009, háð þeim fyrirvörum sem settir verða í kennslu- og rannsóknarsamningi og almennum kröfum um árangur rannsóknarstarfseminnar. Háskólinn mun auk þess efla rannsóknar- og þróunarstarf sitt með fjármögnun frá fyrirtækjum, samtökum atvinnurekenda, samkeppnissjóðum innanlands og erlendis og í samstarfi við rannsóknar- og fræðslustofnanir.

Gert er ráð fyrir að samhliða nýju námi í verkfræði og kennslufræði fjölgi nemendum við háskólann á næstu árum. Með sterkum tengslum við atvinnulífið verður áhersla lögð á að útskrifa nemendur sem í senn geta tekið öflugan þátt í atvinnulífinu hér á landi og stöðugt vaxandi útrás þess á erlenda markaði.

Núverandi rektorar HR og THÍ, þær Guðfinna S. Bjarnadóttir og Stefanía Katrín Karlsdóttir, munu starfa sem rektorar HR og THÍ þar til starfsemi skólanna verður endanlega sameinuð.


Myndir frá undirrituninni


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta