Stefna Íslands kynnt í fjórum ræðum í meginnefndum Sameinuðu þjóðanna
Mörg mál eru til umræðu í meginnefndum 59. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York um þessar mundir, en stefnt er að starfslokum nokkurra þeirra á næstum vikum. Aðrar þeirra starfa til ársloka. Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands, flutti í þessari viku fjórar ræður fyrir hönd íslenskra stjórnvalda; í 2., 3., 4. og 6. nefnd allsherjarþingsins; um réttindi barna, sjálfbæra þróun, varnir gegn hryðjuverkum og um upplýsingamiðlun Sameinuðu þjóðanna.
Í ræðum fastafulltrúa er jafnan kynnt stefna íslenskra stjórnvalda til þeirra málaflokka, sem allsherjarþingið fjallar um hverju sinni.
Mikilvægi verndar barna gegn ofbeldisverkum
Mánudaginn 18. október flutti fastafulltrúi ræðu í 3. nefnd allsherjarþingsins, þar sem fjallað var um réttindi barna í heiminum.
Í ræðu sinni um réttindi barna sagði hann að eftir gíslatökuna í barnaskólanum í Beslan væri mikilvægt að minnast þess að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna staðfesti nauðsyn þess að börn njóti sérstakrar umhyggju og leiðbeiningar.
Hann fjallaði um nauðsyn og mikilvægi þess að vernda börn og ungmenni gegn ofbeldisverkum og vakti í því samhengi athygli á ákvæðum íslenskra laga sem banna foreldrum að beita líkamsrefsingum gagnvart börnum sínum. Fastafulltrúi ræddi einnig um alvarleg áhrif stríðsátaka á almenn lífsskilyrði barna þar sem styrjöld geisar. Að lokum upplýsti fastafulltrúi 3. nefnd um opnun UNICEF-landsnefndar á Íslandi í mars sl.
Kynning á vetnissamfélaginu og samstarf um vatnsveitur
Þriðjudaginn 19. október flutti svo fastafulltrúi ræðu fyrir Íslands hönd við umræður um sjálfbæra þróun og vatnsveitur í annari nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, þeirri nefnd, sem fjallar um umhverfismál og málefni þróunarríkja.
Í ræðu sinni sagði hann frá samstarfsverkefni Íslands, Ástralíu og Bangladesh um vatnsveitur fyrir smá byggðalög í þróunarríkjum, en lögð var áhersla á vatn og hreinlæti í umræðunum. Hann sagði frá því að fyrsti fundur vegna verkefnisins yrði haldinn á Íslandi í janúar n.k. Fundinn sækja sérfræðingar, bæði frá þróunarríkjum og iðnríkjum.
Fastafulltrúi skýrði einnig frá því að fastanefnd Íslands í New York ætli að halda þrjá kynningafundi um vetnissamfélagið í næsta mánuði í húsakynnum sínum.
Baráttan gegn hryðjuverkum er barátta fyrir mannlegum gildum
Sama dag flutti Hjálmar W. Hannesson ræðu í 6. nefnd, laganefnd, ræðu um baráttuna gegn hryðjuverkum í heiminum.
Fastafulltrúi sagði í ræðu sinni að baráttan gegn hryðjuverkum væri barátta fyrir hinum mannlegum gildum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa að markmiði sínu að hlúa að. Hryðjuverk ógni friði og öryggi um allan heim og að öll ríki og alþjóðastofnanir þurfi að taka höndum saman til að uppræta þessa ógn. Öryggisráðið hafi ályktað um að ríki skuli setja lög um mismunandi hliðar á hryðjuverkum, þ.á m. fjármögnun þeirra.
Hann sagði jafnframt að Ísland hafi og muni halda áfram að starfa með nefnd á vegum öryggisráðsins um ráðstafanir gegn hryðjuverkum. Á vettvangi allsherjarþingsins hafi Ísland ávallt stutt ráðstafanir sem eiga að koma í veg fyrir að hryðjuverkasamtök komist yfir gereyðingarvopn og talað fyrir því að alþjóðlegir mannréttindasamningar og mannúðarsamningar séu að fullu virtir í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hann sagði einnig að náist samkomulag um samning um alþjóðleg hryðjuverk og samning um varnir gegn hryðjuverkum með kjarnavopnum verði það afar mikilvægt skref í þeirri baráttu.
Fastafulltrúi upplýsti að lokum að Ísland hefði nú þegar fullgilt alla samninga Sameinuðu þjóðanna og bókanir við þá er varða hryðjuverk og sömuleiðis Evrópusamning um varnir gegn hryðjuverkum.
Upplýsingasamfélagið til þróunarríkja
Síðdegis sama dag flutti fastafulltrúi svo ræðu í 4. nefnd um upplýsingastarf Sameinuðu þjóðanna, en Ísland tekur í fyrsta sinn sæti í upplýsinganefnd S.þ. á næsta þingi hennar eftir næstu áramót.
Hann fagnaði þar þeim endurbótum sem gerðar hafa verið á upplýsingadeild Sameinuðu þjóðanna og benti á að íslensk stjórnvöld hafi aukið fjárveitingar til upplýsingastarfs Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að kynna ungu fólki starf og hlutverk Sameinuðu þjóðanna og benti á nauðsyn þess að ná til þeirra sem ekki hafa átt aðgang að upplýsingum, svo sem vegna skorts á aðgangi að tölvutækni. Brýnt væri að hafa í huga við uppbyggingu þróunarsamvinnu að koma nútíma upplýsingatækni til þeirra, sem hafa án hennar verið.
Hann nefndi sérstaklega vel heppnuð verkefni við kynningu á Sameinuðu þjóðunum í skólum heimsins, bæði verkefnisins Cyberschoolbus, sem nær til grunnskólabarna, og Model United Nations, þar sem framhaldsskólanemar ganga í hlutverk fulltrúa aðildarríkjanna á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, en slíkt kennsluþing er haldið á Íslandi um þessar mundir.