Hoppa yfir valmynd
20. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vígsla Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands á Ísafirði 20. október 2004

Ávarp

Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra

Góðir Ísfirðingar og aðrir gestir.

Það er mér mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin hingað í dag til að fagna með okkur stofnun Snjóflóðaseturs Veðurstofu Íslands hér á Ísafirði.

Segja má að fáir staðir henti betur sem aðsetur fyrir þessa starfsemi Veðurstofunnar. Þó vissulega hafi fleiri sveitarfélög gjarnan viljað fá þessa starfsemi til sín, þá kom að mati ráðuneytisins aldrei til greina að þessi starfsemi yrði staðsett annarsstaðar, utan höfuðstöðva Veðurstofunnar, en hér á Ísafirði.

Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðar 16. febrúar 1995 var samþykkt áskorun á ríkisstjórnina um að koma upp rannsóknarstöð snjóflóða hér á Ísafirði, með það að markmiði að bæta snjóflóðavarnir hér á landi. Strax frá upphafi studdu þingmenn þáverandi Vestfjarðakjördæmis með Einar K. Guðfinnsson í broddi fylkingar málið og hafa átt sinn þátt í því að það tókst að fá viðbótar fjármagn til þessarar starfsemi.

Frá þeim tíma að bæjarstjórn Ísafjarðar ályktaði um rannsóknarmiðstöð snjóflóða hefur mikið vatn til sjávar runnið í málefnum snjóflóðavarna og má fullyrða að öryggi fólks gagnvart ofanflóðahættu í þeim bæjarfélögum sem búa við þá vá hafi batnað verulega frá þeim tíma. Þó ekki sé hér um að ræða fyllilega samskonar starfsemi og bæjarstjórn Ísafjarðar hafði í huga þegar bæjarstjórn ályktaði um málið, þá er tilgangurinn sá sami þ.e. að efla snjóflóðavarnir landsins.

Í raun má segja að fyrstu hugmyndir manna um rannsóknarmiðstöð snjóflóða og nauðsyn slíkrar stöðvar hér á landi hafi ekki reynst eins brýn og talið var í upphafi. Kemur þar einkum til mjög aukin samskipti Veðurstofunnar við erlendar systurstofnanir og vísindamenn á sviði snjóflóðavarna. Má segja að aðgangur sérfræðinga okkar að bestu kunnáttu á þessu sviði sé núorðið mjög vel tryggður.

Engu að síður mun sú starfsemi sem hér er að hefjast styrkja hið þróttmikla starf Veðurstofunnar á sviði snjóflóðavarna og gagnast um allt land. Geri ég mér vonir um að það beina samstarf sem skapast mun milli snjóflóðaeftirlitsmanna á svæðinu og sérfræðinga Veðurstofunnar geti orðið til að efla enn frekar þróun snjóflóðavarna hér á landi. Og síðast en ekki síst vona ég að Snjóflóðasetrið verði til að styrkja þekkingarsamfélagið sem myndast hefur hér á Þróunarsetri Vestfjarða.

Ég vil að síðustu óska Veðurstofu Íslands og Ísfirðingum til hamingju með þessa nýju starfsaðstöðu Veðurstofu Íslands hér á Ísafirði og nýráðnum forstöðumanni Snjóflóðasetursins Hörpu Grímsdóttur velgengni í starfi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta