Hoppa yfir valmynd
22. október 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 16. - 22. október

WHO fundur á Íslandi í næstu viku

Um hundrað manns taka nú þátt í fyrsta stóra alþjóðlega fundinum sem haldinn er á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á Íslandi dagana 24. til 30. október. Þátttakendur eru stjórnendur svokallaðra WHO Collaborating Centres, stofnana sem hafa það sem sitt megin viðfangsefni að flokka sjúkdóma, slys, aðgerðir, heilsufar og aðra þætti sem tengjast heilbrigðisþjónustu. Stofnanir þessar eru í öllum heimsálfum að Afríku undanskilinni og starfa í beinum tengslum við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Stjórnir þeirra halda árlega fundi til að uppfæra, samræma og endurbæta flokkunarkerfin. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið tekur virkan þátt í Norrænu sjúkdómaflokkunarstofnuninni í Uppsala í Svíþjóð og er Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri, formaður stjórnar. Norræna stofnunin bauð til fundarins í ár og ákvað að halda hann í Reykjavík.  Þátttakendur eru um 100 frá um 20 löndum, auk starfsfólks frá aðalskrifstofu WHO í Genf. Upplýsingar um stofnunina er að finna á vefslóðinni www.nordclass.uu.se og þar er einnig að finna allar upplýsingar um fundinn sem hér verður haldinn í næstu viku, erindi, þátttakendur o.fl. undir liðnum WHO-FIC.

 

Endurgreiðslur vegna tannlækninga aukast - gjaldskrá hækkar um 4%

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hefur ákveðið að hækka upphæðir í gjaldskrá fyrir tannlækningar sem þeir njóta sem tryggðir eru samkvæmt almannatryggingalögum. Hækkunin nemur 4% og tekur hún gildi frá 1. nóvember nk. Kynnti ráðherra ákvörðun sína um auknar endurgreiðslur á fundi ríkisstjórnar í morgun. Gjaldskrá gefur heilbrigðismálaráðherra út til að nota sem grunn vegna endurgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins þar sem ekki er í gildi gjaldskrársamningur við tannlækna. Grípur ráðherra til hækkunar nú til að endurgreiðslur þeirra sem eiga rétt á þeim haldi verðgildi sínu. Gjaldskrárhækkunin og auknar endurgreiðslur í kjölfarið rúmast innan fjárveitinga yfirstandandi árs og innan þess ramma sem gilda á á næsta ári að mati sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

 

Stjórnunarupplýsingar LSH fyrstu níu mánuði þessa árs

Komnar eru út stjórnunarupplýsingar Landspítala – háskólasjúkrahúss fyrir fyrstu níu mánuði þessa árs. Þar er að finna upplýsingar úr DRG-flokkunarkerfinu, starfsemistölur miðað við sömu mánuði í fyrra, bráðabirgðauppgjör eftir níu mánuði með samanburði við rekstraráætlun. Að þessu sinni er greint sérstaklega frá starfsemi slysa- og bráðasviðs. Þar kemur fram að vinnuferlaleiðbeiningar sem verið hafa í þróun á árinu fyrir tíu algengustu sjúkdómsgreiningar á bráðavæng slysa- og bráðadeildar í Fossvogi hafi skilað árangri. Árangurinn má sjá á færri innlögnum á legudeildir spítalans, fækkun rannsókna og markvissari þjónustu við sjúklinga, að því er fram kemur í greinargerð framkvæmdastjóra fjárreiðna og upplýsinga.
Nánar...

 

Kostnaður vegna sjúkraþjálfunar hefur hækkað um rúman milljarð á tíu árum

Áætlað er að Tryggingastofnun ríkisins (TR) muni greiða um 1,4 milljarða króna á þessu ári vegna sjúkraþjálfunar. Fyrir tíu árum námu greiðslur TR vegna sjúkraþjálfunar rúmum 300 milljónum króna. Fjallað er um málið á heimasíðu TR og reynt að skýra ástæðurnar fyrir þessari aukningu. Að mati Guðlaugar Björnsdóttur, starsfmanns samninganefndar heilbrigðisráðherra eru engar einhlítar skýringar á þessari þróun heldur koma við sögu margir samverkandi þættir. Að einhverju leyti má rekja þetta til breytinga til breytinga sem gerðar hafa verið á fyrirkomulagi greiðsluþátttöku sjúklinga annars vegar og TR hins vegar. Guðlaug nefnir einnig að viðhorfsbreyting hafi orðið meðal lækna og sjúklinga sem leitt hafi til þess að sjúkraþjálfun er nýtt í auknum mæli.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
22. október 2004-10-22



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta