Heimsókn Varnarmálaskóla Atlantshafsbandalagsins
Í gær lauk tveggja daga heimsókn Varnarmálaskóla Atlantshafsbandalagsins í Róm til Íslands. Í hópnum voru yfirmenn í herjum aðildarríkja og háttsettir embættismenn frá 31 landi, bæði aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum þess í mið-Asíu og við sunnanvert Miðjarðarhaf. Varnarmálaskólinn heimsækir reglulega öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og er Ísland sótt heim um það bil þriðja hvert ár.
Hópurinn kom til landsins til að kynna sér öryggis- og varnarmál landsins og var þeim meðal annars kynnt stefna og markmið Íslands í öryggis- og varnarmálum, aukin þátttaka Íslands í alþjóðlegum friðargæsluverkefnum, starfsemi Landhelgisgæslu Íslands auk helstu áhersluatriða í stefnu landsins í utanríkismálum. Einnig kynnti hópurinn sér starfsemi varnarliðsins.