Hoppa yfir valmynd
26. október 2004 Matvælaráðuneytið

Evrópuverkefnið Konur í atvinnurekstri og landbúnaði

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 22/2004

Evrópuverkefnið "Konur í atvinnurekstri og landbúnaði".

Umræðufundur á Íslandi

Evrópuverkefnið konur í atvinnurekstri og landbúnaði ,,Women and ownership in business and agriculture" er samstarfsverkefni Noregs, Svíþjóðar, Lettlands, Íslands og Grikklands.

Markmið verkefnisins er m.a. að bera kennsl á hvaða hindranir verða helst á vegi kvenna sem reka eigin fyrirtæki. Finna leiðir til þess að aðstoða og styðja konur í atvinnurekstri í þeim tilgangi að fjölga enn frekar konum sem sjá atvinnutækifæri í eigin viðskiptahugmyndum. Með því að auka hlut kvenna í viðskiptalífinu má ætla að mannauðurinn sem falinn er í reynslu, þekkingu og sköpunarkrafti þeirra nýtist þjóðfélaginu betur, stuðli að auknum hagvexti og styrki efnahags- og félagslega stöðu kvenna.

Leitað er til kvenna í öllum þátttökulöndunum sem hafa reynslu og þekkingu á því að reka eigin fyrirtæki. Með þessari aðferð er miðlað þekkingu sem getur varpað skýrara ljósi á aðstæður kvenna í atvinnurekstri í viðkomandi löndum og þannig þróaðar nýjar leiðir til þess að efla enn frekar atvinnusköpun meðal kvenna.

Verkefninu lýkur með ráðstefnu í Osló í janúar á næsta ári þar sem niðurstöður rannsóknarverkefnisins verða kynntar.

Umræðufundur verður haldinn á Íslandi þann 29. október n.k. á Radisson hótel Sögu með þátttöku aðila úr stoðkerfi atvinnulífsins. Markmið fundarins er að skapa umræðuvettvang þar sem fjallað verður um á hvern hátt hið opinbera stoðkerfi atvinnulífsins, fjármálastofnanir og fræðasamfélagið geti með auknu samstarfi virkjað enn betur menntun, hæfni og þekkingu kvenna til sóknar fyrir íslenskt atvinnulíf.

Umræðan verður mikilvægur grunnur við tillögugerð og gerð aðgerðaáætlunar sem sett verður fram í lokaskýrslunni til Evrópusambandsins um aukið jafnræði milli kynjanna í eigin atvinnurekstri og stjórnun fyrirtækja.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra og Herdís Sæmundardóttir stjórnarformaður Byggðastofnunar flytja ávörp og kynntar verða helstu niðurstöður verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Elín Þórðardóttir hjá Byggðastofnun, í síma 455 5400 [email protected].

Reykjavík, 26. október 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta