Hoppa yfir valmynd
28. október 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Stærsti þjóðgarður Evrópu verður að veruleika

Árni Jón Elíasson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Albert Eymundsson
Árni Jón Elíasson Sigríður Anna Þórðardóttir Albert Eymundsson

Umhverfisráðherra hefur með undirritun sinni í dag, 28. október 2004, staðfest nýja reglugerð um stækkun Skaftafellsþjóðgarðs sem stofnaður var árið 1967. Reglugerðin felur í sér þreföldun á flatarmáli þjóðgarðsins, sem var áður 1.600 km2 en er nú er orðinn 4.807 km2. Skaftafellsþjóðgarður nær nú meðal annars til svæðis sem nemur um 57% af Vatnajökli auk Lakagígasvæðisins.

Í fyrstu grein reglugerðar um Skaftafellsþjóðgarð segir að markmiðið með stofnun og rekstri þjóðgarðsins sé að vernda landslag, lífríki og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu. Auðvelda skuli almenningi aðgengi að þjóðgarðinum eftir því sem unnt sé án þess að náttúra hans spillist og efla skuli fræðslu um náttúru, sögu og mannlíf svæðisins. Landnýting innan þjóðgarðs skuli vera í samræmi við markmið hans og byggja á sjónarmiðum sjálfbærrar þróunar.

Undirritun reglugerðar um Skaftafellsþjóðgarð (Gunnar Geir Vigfússon)

Haft hefur verið náið samráð við heimamenn vegna stækkunar Skaftafellsþjóðgarðs og gerð reglugerðar um hann. Fyrr í þessum mánuði voru haldnir þrír opnir fundir á Höfn, í Suðursveit og á Kirkjubæjarklaustri, þar sem ráðherra kynnti drög að reglugerðinni og leitaði eftir athugasemdum heimamanna. Jafnframt var haft samráð við aðra hagsmunaaðila, svo sem ferðamálasamtök og umhverfis- og útivistarsamtök. Skaftafellsþjóðgarður er í Sveitarfélaginu Hornafirði og Skaftárhreppi, sem hafa nú fyrir sitt leyti samþykkt efni reglugerðarinnar.

Þessi stækkun Skaftafellsþjóðgarðs er fyrsti hluti Vatnajökulsþjóðgarðs sem mun ná til jökul­hettunnar og helstu áhrifasvæða jökulsins. Fyrir liggja tillögur um að hluti landsins norðan Vatnajökuls verði meðal annars hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Mun ráðuneytið leggja áherslu á frekari undirbúning þessa máls í samvinnu við heimamenn og hagsmunaaðila.

Kort af Skaftafellsþjóðgarði eftir stækkunina.

Fréttatilkynning nr. 42/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta