Jafnréttisáætlanir og jafnréttisviðurkenning
Þriðjudaginn 26. október gekkst Jafnréttisráð fyrir málþingi um gerð jafnréttisáætlana. Málþingið var m.a. haldið til að fylgja eftir bréfi félagsmálaráðherra síðastliðið vor þar sem fyrirtæki landsins og stofnanir voru hvött til að huga að ákvæði jafnréttislaga um að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn séu skyldug að setja sér jafnréttisáætlun.
Að málþinginu loknu var sérstök athöfn þar sem Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, afhenti árlega viðurkenningu Jafnréttisráðs fyrir framlag til jafnréttis karla og kvenna á Íslandi. Að þessu sinni fékk Guðfríður Lilja Grétarsdóttir forseti Skáksambands Íslands, viðurkenninguna fyrir framúrskarandi störf á liðnum árum að því að efla skákiðkun kvenna og stúlkna á Íslandi og metnaðarfulla framtíðarsýn á því sviði.
Meginástæður ákvörðunar Jafnréttisráðs að veita Guðfríði Lilju viðurkenninguna eru þessar:
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir vakti þegar á unglingsaldri mikla athygli fyrir hæfileika sína í skák og varð alþjóðlegur meistari kornung. Hún hefur ellefu sinnum orðið Íslandsmeistari kvenna í skák.
Á síðustu árum hefur Guðfríður Lilja unnið af mikilli ósérhlífni og með stórkostlegum árangri að því að efla skákiðkun kvenna og stúlkna á Íslandi. Hún endurvakti kvennalandslið Íslands í skák árið 2000 og safnaði þá bæði liði og fé, svo Íslendingar gætu rekið af sér það slyðruorð að vera án kvennalandsliðs í skák, einir landa Vesturheims. Guðfríður Lilja hefur leitt landslið Íslands, sem náð hefur æ betri árangri á síðustu árum.
Guðfríður hefur líka látið sig uppeldisstarfið miklu varða. Hún hefur haldið ótal skáknámskeið fyrir stúlkur og hélt úti skákskóla fyrir stúlkur að heimili sínu auk þess sem hú stofnaði fyrir eigið fé sérstakan afrekssjóð stúlkna í skák innan Taflfélagsins Hellis. Þá hefur Guðfríður Lilja skipulagt vel heppnaða viðburði, meðal annars fjöltefli þar sem hátt á annað hundrað konur úr öllum áttum tefldu við stúlkurnar í kvennalandsliðinu.
Nú í vor braut Guðfríður Lilja svo blað í skáksögu Íslands þegar hún var kjörin forseti Skáksambands Íslands, fyrst kvenna. Undir hennar forystu hefur Skáksamband Íslands kynnt nýja og metnaðarfulla stefnu sem kallast „Finnur fjórir“. Hluti þeirrar stefnu er „Femínistagambíturin“ sem felur í sér skýr og ákveðin markmið varðandi aukningu skákiðkunar stúlkna og kvenna á næstu árum. Að því verði stefnt að árið 2022 verði jafnmargar íslenskar konur orðnar stórmeistarar í skák og karlar.
Að mati Jafnréttisráðs hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir unnið framúrskarandi störf á liðnum árum að því að efla skákiðkun kvenna og stúlkna á Íslandi og hefur jafnframt metnaðarfulla framtíðarsýn á því sviði. Hún er því vel að viðurkenningu ráðsins komin.
Viðurkenningar Jafnréttisráðs 1992–2004
1992 Akureyrarbær
1993 Íþróttasamband Íslands
1994 Hans Petersen
1995 Stúdentaráð Háskóla Íslands
1996 Íslenska álfélagið
1997 Hjallastefnan Hafnarfirði – Margrét Pála Ólafsdóttir
1998 Reykjavíkurborg
1999 Eimskip
2000 Auður Eir Vilhjálmsdóttir, Bjarnfríður Leósdóttir, Helga Kress, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Svava Jakobsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir
2001 Verzlunarmannafélag Reykjavíkur
2002 Orkuveita Reykjavíkur
2003 Kvenréttindafélag Íslands
2004 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir