Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2004 Innviðaráðuneytið

Ráðherraráðstefna um hafnarríkiseftirlit í Vancouver

Dagana 1.-3. nóvember er í annað sinn haldin, í Vancouver í Kanada, ráðherraráðstefna tveggja ríkjahópa sem eru aðilar að svokölluðu Parísarsamkomulagi og að svokölluðu Tokýósamkomulagi.

Parísarsamkomulagið er á milli ríkja í Evrópu en Tokýósamkomulagið er á milli nokkurra ríkja í Asíu og við Kyrrahafið og miða þau að því að tryggja að skip standist alþjóðakröfur um gerð og búnað.

Ísland var samþykkt sem aðildarríki Parísarsamkomulagsins árið 2000 en hafði fram að þeim tíma átt aukaaðild að því. Auk Íslands eru Evrópubandalagsríkin, Noregur og nokkur önnur Evrópuríki aðilar að samkomulaginu. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra situr ráðstefnuna og flutti ávarp í gær. Auk hans sitja ráðstefnuna ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytis Ragnhildur Hjaltadóttir og Sigurbergur Björnsson skrifstofustjóri í samgönguráðuneytinu sem fer með þennan málaflokk.

Í ávarpi samgönguráðherra vísaði hann til þess hversu mikilvægar öruggar siglingar eru fyrir Ísland. Þar kom jafnframt fram að 98% af flutningi til og frá landinu færu sjóleiðina. Af um 350 skipum sem komu til landsins 2003 voru um 25% eða 82 skoðuð. Þá vísaði samgönguráðherra m.a. til þess að samkvæmt upplýsingum frá alþjóðastofnunum væri nú starf fiskimanna talið einna hættulegast á alþjóðavísu og hvatti aðildarríkin til þess að staðfesta Torremolinos samninginn um öryggi fiskiskipa og STCW-F samninginn um þjálfun og vaktstöður sjómanna á fiskiskipum. Ávarpið er hér í fullri lengd á ensku. Fyrirhugað er að samgönguráðherra skrifi undir ráðherrayfirlýsingu í lok ráðstefnunnar í dag undir yfirskriftinni "Strenghten the Circle of Responsibility" sem miðar við að styrkja hlutverk og ábyrgð hlutaðeigandi aðila við að framfylgja hafnarríkiseftirliti



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta