Áfengisneysla á dagskrá Norðurlandaráðs
Vaxandi áfengisneysla á Norðurlöndum veldur heilbrigðisyfirvöldum þar áhyggjum. Þetta kom fram á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Stokkhólmi í vikunni. Ráðherrar heilbrigðismála landanna gerðu á þinginu grein fyrir stöðu mála og sátu fyrir svörum fulltrúa á þinginu. Tveir heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar ávörpuðu fundinn og sátu fyrir svörum, Jón Kristjánsson og Dagfinn Höjbråten frá Noregi, en auk þeirra sátu fyrir svörum finnski fjármálaráðherrann, Ulla-Maj Wideroos, Margareta Israelsson, Svíþjóð, og Flemming Hansen frá Danmörku. Fulltrúar landanna fögnuðu því allir að áfengismál væru komin á dagskrá norðurlandasamstarfsins og allir taka undir mikilvægi þess, þrátt fyrir afar mismunandi áherslur í hverju landi fyrir sig, að reyna sameiginlega að koma áfengismálum á dagskrá Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og Evrópusambandsins. Lögðu allir ráðherrar ríka áherslu á beina sjónum manna að heilbrigðisþáttum í áfengisumræðunni á alþjóðlegum vettvangi og ekki aðeins viðskiptasjónarmiðum.