Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða 4. nóvember 2004

Ávarp
Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra

Ágætu fundarmenn.

Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til að hitta ykkur hér í dag en ég tel afar mikilvægt að ráðuneytið haldi góðu sambandi við samtökin og fundi reglulega með þeim. Það var heillaspor þegar heilbrigðiseftirlitssvæðin stofnuðu samtök eftir að heilbrigðisnefndum í landinu hafði fækkað úr rúmlega 40 í 10 með lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það hafði lengi verið áhugamál stjórnvalda að fækka nefndunum, sem áður voru í hverju sveitarfélagi, en fækkaði síðan verulega með lögum sem tóku gildi 1982, eða í um 40 og síðan í 10 árið 1998 eins og áður segir. Þessi fækkun leiddi m.a. til þess að nefndirnar náðu að bindast í einum samtökum, sem koma fram gagnvart stjórnvöldum til að rækja sameiginlega hagsmuni nefndanna.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa þá sérstöðu meðal nefnda sveitarfélaganna að þær ná yfir fleiri en eitt sveitarfélag ef frá er talin Reykjavíkurborg. Þær eru líka einstakar að því leyti að þær fara með ákvörðunarvald og eru ekki háðar samþykki sveitarfélaganna um ákvarðanir sínar. Séu sveitarfélögin ósátt við ákvarðanir nefndanna geta þau ekki hnekkt þeim heldur vísað til umhverfisráðherra til fullnaðarúrskurðar. Slíkt hefur afar sjaldan gerst og engin dæmi finnast um það síðustu tvo áratugina sem væntanlega segir að sveitarfélögin hafi verið tiltölulega sátt við ákvarðanir nefndanna. Það vitnar og um gott samstarf nefndanna við sveitarfélögin sem að baki þeim standa.

Að undanförnu hafa verkaskiptamál ríkis og sveitarfélaga verið til umræðu sérstaklega með hliðsjón af flutningi verkefna frá ríki yfir til sveitarfélaga. Að þeim málum starfar samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga. Ég geri mér grein fyrir því að það sem helst brennur á ykkur í þessu sambandi er sú umræða sem orðið hefur um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í tengslum við matvælaeftirlitið og frumvarp um samræmingu þess sem lagt var fyrir Alþingi á vegum fyrri ríkisstjórnar á vorþingi 2003. Sama er að segja um þá starfsmenn Umhverfisstofnunar sem vinna að matvælamálum og matvælarannsóknum.

Það hefur ekki farið fram hjá mér að ýmsar vangaveltur eru uppi um að þegar hafi verið ákveðið að matvælamálum verði komið fyrir á einum stað. Slíkar vangaveltur valda eðlilega óróa meðal starfsfólksins ekki síst þegar á það er litið að þessi mál hafa verið til töluverðrar umræðu að undanförnu. Til þess að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að engar ákvarðanir hafa ennþá verið teknar í þessa veru enda þarf að vanda vinnu við undirbúning og framkvæmd slíkra breytinga. Þær verða einungis gerðar í samstarfi við sveitarfélögin og hlutaðeigandi ráðuneyti sem allt tekur sinn tíma.

Ég tel þó eðlilegast að þessi mál heyri undir eitt ráðuneyti, eina stofnun á vegum ríkisvaldsins og ein lög. Það kann hinsvegar að kalla á breytta verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í þessu efni ber þó að hafa í huga að heilbrigðiseftirlit, þar með talið matvælaeftirlit, hefur verið byggt ötullega upp af hálfu sveitarfélaganna á síðustu tveimur áratugum og er nú vel sinnt í landinu öllu með fyllilega sambærilegum hætti og gerist í nágrannalöndunum. Menn spyrja því eðlilega hvort nauðsynlegt sé að breyta því kerfi?

Breytingar á því kalla á viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um breytta verkaskiptingu og ég held að þeir sem til þekkja séu almennt þeirrar skoðunar að það þjóni litlum tilgangi að fara út í breytingar með það eitt að leiðarljósi að færa matvælaeftirlitið yfir til ríkisins án þess að litið sé til heildarinnar þ.e.a.s. heilbrigðiseftirlits og mengunarvarnaeftirlits. Hvort slík breyting sé óhjákvæmileg til að ná þeim markmiðum sem við teljum nauðsynleg, læt ég ósagt hér, en það er augljóslega mál sem þarf að skoða nánar.

Hvað sem þessum hugleiðingum líður er ljóst að taka verður á matvælamálum með samræmdum hætti í framtíðinni. Kröfur í nýrri löggjöf Evrópusambandsins um matvæli og ábyrgð ríkisvaldsins gagnvart Eftirlitsstofnun EFTA um vandaða framkvæmd kalla á breytingar sem gera hana einfaldari, skýrari og samfelldari.

Nýlega mælti ég á Alþingi fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þar er lagt til að hollustuháttaráð, sem skipað er níu fulltrúum tilnefndum af þar til greindum samtökum, félögum og embættum, verði lagt niður en að í staðinn komi samstarfsnefnd umhverfisráðuneytisins, Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem taki við hlutverki ráðsins sem er að fjalla um atriði er falla undir lögin og varða atvinnustarfsemi. Er það í samræmi við upphafleg markmið sem lágu að baki þessu ákvæði að stjórnvöld sem marka stefnuna þ.e.a.s. ríkið og sveitarfélögin og atvinnulífið sem stendur undir stærstum hluta kostnaðar við eftirlitið hafa lögbundinn vettvang til þess að fjalla um þau mál og jafnvel að taka upp stefnumarkandi mál og beina til stjórnvalda. Vænti ég að þessi breyting muni verða til þess að gera starfsemi þessarar nýju nefndar virkari en starfsemi Hollustuháttaráðs hefur verið.

Mig langar nú að víkja hér örfáum orðum að öðru máli en það er gjaldtaka sveitarfélaganna vegna framkvæmdar heilbrigðiseftirlitsins en það mál hefur nýlega verið í umfjöllun hjá Samtökum atvinnurekenda. Þegar núgildandi lög voru sett 1998 var lögð sú skylda á umhverfisráðuneytið að gefa út leiðbeiningar um viðmiðunargjaldskrá vegna eftirlitsins og var það gert. Helgaðist þetta af því að með nýju lögunum var ákveðið að hverfa frá því fyrirkomulagi að ráðuneytið staðfesti allar gjaldskrár sveitarfélaganna en í stað þess settu sveitarfélögin þær sjálf. Í lögunum er gengið út frá því að aðeins sé innheimt fyrir veitta þjónustu og að þjónustan sé sem mest sambærileg í landinu þótt vitanlega geti ýmis atriði haft þar áhrif á s.s. stærð svæða og fjöldi íbúa. Alveg fram til 1998 þegar ráðuneytið þurfti að staðfesta slíkar gjaldskrár var þessu fylgt vel eftir af hálfu ráðuneytisins og eftirlitsgjöld voru tiltölulega jöfn í landinu. Samkvæmt úttekt Verslunarráðs Íslands sem nýlega var gerð heyrum kunnug virðist hafa orðið breyting hér á þannig að eftirlits- og sýnatökugjöld eru áberandi mismunandi í mörgum tilvikum. Með þessu er verið að leggja mismunandi gjöld á atvinnuvegina í landinu eftir því hvar starfsemin fer fram. Vil ég beina því til Samtakanna að beita sér fyrir því að þetta mál verði skoðað vel og séð til þess að samræmis verði gætt í gjaldtöku fyrir þjónustu. Ég legg áherslu á að hófs sé gæt í gjaldtökunni.

Kæru áheyrendur. Ég hef staðnæmst hér á undan við nokkur veigamikil mál er snúa að starfsemi heilbrigðiseftirlitsins í landinu en af mörgu fleira er að taka sem tímans vegna er ekki hægt að gera skil hér í dag. Sem stendur er unnið að gerð skrár yfir þau verkefni sem ég hyggst leggja áherslu á að vinna í ráðuneytinu til loka kjörtímabils. Þessi verkefnaskrá verður tilbúin á næstu vikum. Þar mun kenna ýmissa grasa í tengslum við þá málaflokka sem undir heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna fellur. Næst þegar við hittumst gefst væntanlega tækifæri til þess að fjalla betur um þau mál.

Ég þakka fyrir áheyrnina og hlakka til að eiga við ykkur óformlegt spjall hér á eftir um það sem ykkur brennur á hjarta og varðar starfsemi heilbrigðiseftirlitsins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta