Kynning á drögum að nýrri námskrá fyrir hársnyrtiiðn
Til þeirra er málið varðar
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að nýrri námskrá fyrir hársnyrtiiðn á vef ráðuneytisins, menntamalaraduneyti.is. Fyrirliggjandi námskrárdrög voru unnin af starfsgreinaráði snyrtigreina. Námskrá í hársnyrtiiðn var seinast endurskoðuð í heild sinni árið 1996, en núgildandi brautarlýsing er frá júlí 2004. Helstu nýmæli í hársnyrtinámi samkvæmt þessum drögum eru þessi.
1. Nám í skóla lengist. Gert er ráð fyrir að nám í skóla lengist um eina önn, fer úr fjórum önnum í fimm. Helstu rök fyrir þessari breytingu eru þau að hársnyrtistofur verða æ sérhæfðari og bjóða þjónustu á æ afmarkaðri sviðum. Til þess að mæta þessari þróun er bætt við fimmtu námsönn í skóla og er ætlast til þess að á þeim tíma fái nemendur kennslu í þeim þáttum sem þeir ella misstu af.
2. Nám á vinnustað styttist. Til þess að mæta lengingu náms í skóla og til að forðast lengingu heildarnámstíma er lagt til að vinnustaðanám styttist. Samkvæmt núgildandi námsskipan er vinnustaðanám í hársnyrtiiðn 96 vikur, en styttist með nýju skipulagi í 72 vikur.
Námskrárdrögin verða til kynningar á framangreindu vefsvæði næstu fjórar vikurnar eða til 1. desember 2004. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda inn athugasemdir og ábendingar um námskrána í heild, eða einstaka þætti hennar, til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected]. Að loknu umsagnarferlinu mun ráðuneytið gera þær lagfæringar á námskránni sem nauðsynlegar teljast, staðfesta hana og senda auglýsingu um gildistöku hennar til birtingar í Stjórnartíðindum. Námskráin verður að því loknu birt á námskrárvef ráðuneytisins.
Farið er vinsamlega fram á að efni þessa bréfs sé kynnt fyrir þeim sem það á erindi til.