Nýr vefur og ný húsakynni Póst- og fjarskiptastofnunar
Síðastliðinn föstudag opnaði Sturla Böðvarsson formlega nýjan vef Póst- og fjarskiptastofnunar.
Vefurinn er á vefslóðinni www.pfs.is og er hinn glæsilegasti og fullur af fróðleik. Þar eru meðal annars birtar upplýsingar úr neytendakönnun sem gerð var til að kanna hegðun neytenda á fjarskiptamarkaði. Í könnuninni kemur m.a. fram að 99% fólks á aldrinun 16-24 ára eiga eða hafa aðgang að GSM síma. Einnig er þar að finna upplýsingar um hvað ræður vali á þjónustuaðila fyrir heimilissíma og GSM síma og ástæður þess að fólk skiptir um símafyrirtæki.
Á vefnum er líka birt kynningarrit um nýjung á fjarskiptamarkaði, þ.e. talsímaþjónustu með svokallaðri Voice over IP tækni. Með tilkomu þessarar nýju tækni má búast við því að verð á símtölum lækki og ennfremur er líklegt að þessi nýja tækni auðveldi nýjum fyrirtækjum að koma inn á fjarskiptamarkaðinn. Það kom fram í ávarpi Hrafnkels V. Gíslasonar, forstöðumanns Póst- og fjarskiptastofnunar að hann vænti þess að samkeppni myndi aukast á þessum markaði í náinni framtíð.
Samgönguráðuneytið óskar starfsmönnum Póst- og fjarskiptastofnunar til hamingju með nýjan vef og ný húsakynni við Suðurlandsbraut 4a.