Afhending trúnaðarbréfs
Stefán Skjaldarson, sendiherra, afhenti þann 2. nóvember sl. emirnum af Kúveit, hans hátign Sheikh Jaber al-Ahmed al Jaber Al Sabah, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Kúveit með aðsetur í Osló. Stefán er fyrsti sendiherra Íslands í Kúveit en stofnað var til stjórnmálasambands við furstadæmið árið 1996.
Í tilefni afhendingarinnar átti Stefán fundi með ráðamönnum í Kúveit. Á fundunum var kynnt framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009 og 2010. Staða mála í Mið-Austurlöndum var rædd og fram kom þakklæti vegna stuðning Íslands við kúveisku þjóðina á erfiðum tímum.
Samskipti Íslands og Kúveit hafa ekki verið mikil hingað til. Sendiherrann og ráðamenn voru sammála um að ástæða væri til að kanna nýja samstarfsfleti, ekki síst á sviði viðskipta. Fyrstu skrefin í þeim efnum gætu falist í gerð samninga um vernd fjárfestinga, tvísköttun og flugmál.
Kúveit er tæplega 18 þúsund ferkílómetrar að stærð. Íbúarnir eru tæplega tvær og hálf milljón. Mikill meirihluti þjóðarinnar eru múhameðstrúar og arabíska er þjóðtungan. Olíuafurðir er stærsti hluti af útflutningstekjum landsins og um helmingur landsframleiðslu.