Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 2004

Fyrir níu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert.

Fyrir níu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert. Menntamálaráðuneytið hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það, í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga enda virðist dagur íslenskrar tungu hafa náð fótfestu í samfélaginu.

Dagsins er minnst með margvíslegu móti. Hér verða nefnd ýmis dæmi um viðburði o.fl. nú í ár.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt á hátíðardagskrá í Safnahúsinu á Ísafirði

Á degi íslenskrar tungu, þriðjudaginn 16. nóvember, afhendir menntamálaráðherra Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2004 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls. Dagskráin verður í Safnahúsinu á Ísafirði og hefst kl. 13.30. Tónlistarflutningur í umsjón Tónlistarskóla Ísafjarðar. Upplestur: Hildur Sólmundsdóttir, frá Þingeyri, og Halldór Smárason, frá Ísafirði, verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni 2004 og 2002. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Námsgagnastofnun

Námsgagnastofnun hefur útbúið sérstaka vefsíðu helgaða degi íslenskrar tungu. Þar er leitast við að gefa kennurum hugmyndir að skemmtilegum verkefnum sem nota má í tilefni dagsins. Sjá http://namsgagnastofnun.is/gpw/ngs.nsf/pages/dagur.html

Tölvutunga

Hádegisverðarfundur Skýrslutæknifélags Íslands um íslensku í tæknigeiranum verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík mánudaginn 15. nóvember kl. 12. Erindi halda Þorvarður Kári Ólafsson, Sveinn V. Ólafsson, Sigrún Helgadóttir og Eiríkur Rögnvaldsson. Sjá http://www.sky.is/?q=content&menu=12&SGid=129

Dagur íslenskrar tungu í Edinborgarhúsinu á Ísafirði

Dagskrá 16. nóvember kl. 20.30. Fjallað í tali og tónum um Jónas Hallgrímsson og verk hans. Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð Jónasar. Tinna Ólafsdóttir og Helgi Þór Arason, nemendur úr leiklistarklúbbi Menntaskólans á Ísafirði, lesa ljóð og leiklesa úr hinni góðkunnu sögu Jónasar, Grasaferðinni. Guðrún Jónsdóttir, sópransöngkona, og Margrét Gunnarsdóttir, píanóleikari, flytja nokkur lög. Hrafnhildur Hafberg, íslensku- og leikhúsfræðingur, stjórnar dagskránni. Sjá vefinn um Veturnætur http://www.isafjordur.is/vn/a_dofinni.phtml.

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og Mjólkursamsölunnar

Laugardaginn 20. nóvember í hátíðasal Háskóla Íslands, kl. 11.00-13.00. Umræðuefnið er áhrif hnattvæðingar og upplýsingatækni á þjóðtungur. Erindi halda Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, Hafsteinn Bragason hjá Actavis, Tatjana Latinovic, formaður Félags kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, og Arnór Guðmundsson, þróunarstjóri í menntamálaráðuneyti. Námsstyrkur Mjólkursamsölunnar verður afhentur. Allir velkomnir.

Leikjavefurinn

Á Leikjavefnum eru margir leikir sem henta vel til notkunar á degi íslenskrar tungu. Má þar t.d. nefna flokk um orðaleiki, leiki til að finna málshátt, búa til orð, safna orðum o.s. frv. http://www.leikjavefurinn.is/.

Leikskólar - dæmi

Samverustund á sal í tilefni dagsins. Unnið sérstaklega með íslenskt mál alla vikuna á undan deginum. Rætt um skáldið Jónas Hallgrímsson. Börnin læra vísur og söngva og búa til leikrit út frá ljóðum eða sögum Jónasar. Sérstakur bókadagur haldinn.

Framhaldsskólar - dæmi

Frá Menntaskólanum að Laugarvatni verður farin ferð til Reykjavíkur, 15. november, í tengslum við íslenskuáfanganum ÍSL 473- Íslenskt mál og miðlun. Farið verður á kappræðufyrirlestur í Kennaraháskóla Íslands um málstefnu kl. 12:00, Bókaútgáfan Edda útgáfa heimsótt kl. 14:30 og komið við á Gljúfrasteini kl. 16:00.

Þriðjudaginn 16. nóvember verður haldið upp á 140 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar, höfundar skólasöngs ML, sem var 31. október sl. Á húsþingi í skólanum verður 40 mínútna dagskrá kl. 9:05. Upplestur, æviágrip og tónlist. Sama dag kl:16.10 verður málfundur 1. árs nema tileinkaður tungunni, í tengslum við framsagnarnámskeið í íslenskunámi þeirra, undir yfirskriftinni: "Á að leggja íslensku niður?"

Leikdagskrá um Jónas Hallgrímsson - dæmi

Leikararnir Felix Bergsson og Þórdís Arnljótsdóttir, ásamt píanóleikara, hafa boðið skólum uppá frumsamda leikdagskrá um Jónas Hallgrímsson. Stiklað er á stóru í ævi og störfum Jónasar og fléttað inn brotum úr sögum hans og ljóðum.

Vefur dags íslenskrar tungu er: http://www.mrn.stjr.is/malaflokkar/Menning/dit

Menntamálaráðuneytið hefur falið Íslenskri málstöð að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2004. Nánari upplýsingar veitir Ari Páll Kristinsson, [email protected].

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta