Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðalfundur Æðarræktarfélags Íslands, 13. nóvember 2004

Ávarp

Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfísráðherra

Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Æðurin hefur skipað veglegan sess í íslenskri atvinnusögu frá örófi alda og auk þess verið landsmönnum sannur gleði- og ylgjafi. Um hana jafnvel verið ort ódauðleg ljóð, sbr. Vorvísu 1854 eftir Jón Thoroddsen þar sem segir "hreiðrar sig blikinn og æðurin fer". Æðarfugli og hlunnindum sem honum tengjast hafa í gegnum aldirnar staðið ógn af erni og tófu og nú síðustu áratugina hefur minkurinn líka komið við sögu í þessu sambandi. Þeir sem til þekkja eru sammála um að tjón af völdum þessara dýra sé talsvert þótt ekki hafi farið fram beinar rannsóknir á því eða takmarkaðar til þess að sannreyna það.

Tengsl umhverfisráðuneytisins við málefni Æðarræktarfélags Íslands eru auk umhverfismála og náttúruverndar almennt fyrst og fremst bundin við afskipti ráðuneytisins af erninum, tófunni og minknum. Samkvæmt lögum nr. 64/1994, um villt dýr, eins og þau eru oft nefnd í stuttu máli fer umhverfisráðuneytið með yfirstjórn mála er varða villta fugla og villt spendýr í íslenskri náttúru auk þess sem dýraverndarlög nr. 15/1994 falla undir verksvið ráðuneytisins. Í lögum um villt dýr er sérstaklega kveðið á um vernd dýra og þeirri aðalreglu fylgt að allir villtir fuglar og öll villt spendýr í íslenskri náttúru séu friðuð nema annað sé tekið fram í lögunum eða þar sem umhverfisráðherra að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og takmörkunum getur aflétt slíkri friðun. Íslenska þjóðin hefur lagt mikið upp úr því að arnarstofninn nái að vaxa á ný en gripið var til alfriðunar hans árið 1914. Fyrstu árin þar á eftir hallaði enn undan fæti og síðan hefur stofninn að mestu staðið í stað en er nú farinn að ná sér á strik og er jafnvel farinn að dreifa sér út fyrir þau svæði sem hann hefur dvalið undanfarna áratugi. Það sýnir glöggt að friðunin hefur borið árangur með samstilltu átaki, góðri hugsun og góðum vilja. Samkvæmt áðurnefndum lögum um villt dýr er örninn algjörlega friðaður sem segir að umhverfisráðherra er ekki heimilt að aflétta friðun af honum eins og t.d. á við um ýmsar aðrar fuglategundir s.s. rjúpu, gæsir og endur. Ég held að enginn Íslendingur í alvöru sé því fylgjandi að farið verði að drepa örn að nýju í því skyni að koma í veg fyrir tjón. Afar litlar líkur eru á því að arnarstofninn geti orðið svo stór, á komandi árum, að réttlætanlegt sé með stjórnvaldsaðgerðum eða öðrum ráðum að fækka honum. Þann árangur, sem náðst hefur varðandi vöxt og viðgang arnarins á undanförnum árum, má ekki síst þakka nærgætinni umgengni við óðul og varpstaði arna og er á engan hallað þótt bændum sé þar fyrst og fremst þakkað ekki síst æðarbændum. Það er hins vegar ljóst að örn getur verið vargur í æðarvörpum og að beita verður einhvers konar varnaraðgerðum til þess að tjón verði sem minnst en aldrei verður hægt að fyrirbyggja það að fullu. Örninn á sér þegnrétt í íslenskri náttúru og taka verður tillit til þess en mikilvægt er að góð samstaða sé við þá sem hlut eiga að máli s.s. æðarræktendur og ferðaþjónustuna um þær umgengnisreglur sem við viljum halda í heiðri erninum til framdráttar.

Umhverfisráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands, en sú stofnun annast vöktun og eftirlit með arnarstofninum, hafa oft sætt gagnrýni fyrir hvernig staðið er að þessum málum en á síðari árum hefur tekist samstarf við bæði æðarræktendur og ferðaþjónustuna um málefnið. Ég er þar með ekki að segja að allir séu sáttir við þær reglur sem settar hafa verið og hafa nú verið færðar ótvírætt inn í lög með breytingu á áðurnefndum lögum um villt dýr sem samþykktar voru á síðasta þingi. Ég vænti þess að þær reglur verði eigi að síður virtar og að komi til einhvers konar árekstra varðandi framkvæmd þeirra verði þeir leystir í góðu samstarfi ráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og félagsins.

Eins og ég nefni hér í upphafi stafar æðarfugli ekki aðeins ógn af erni heldur einnig tófu og mink. Þessar tvær spendýrategundir njóta ekki sömu friðhelgi og örninn og reynar hefur það verið yfirlýst stefna þótt ekki hafi hún formlega verið sett fram af hálfu stjórnvalda að útrýma beri mink úr íslenskri náttúru. Refurinn á hins vegar þegnrétt hér á landi og nýtur meiri samúðar en minkurinn. Veiðar á tófu og mink eru heimilar án takmarkana nema í friðlöndum, þar sem ákvörðun hefur verið tekin um að leyfa þær ekki. Veiðarnar eru gjarnan stundaðar af atvinnuveiðimönnum en sveitarfélögin eru ábyrg fyrir framkvæmdinni. Ríkið hefur greitt hluta af kostnaði við þessar veiðar en á síðustu tveimur árum hefur framlag ríkisins verið skorið niður út 50% í 30%. Hefur þetta jafnvel leitt til þess að sum sveitarfélög sinna aðeins lágmarks veiðum og önnur nánast lagt þær niður. Velta má fyrir sér hvort rétt sé að þau sveitarfélög sem þannig eru í sveit sett að þau þurfi að kljást við þann vanda sem fólginn er í tjóni af völdum refs og minks eigi að standa undir kostnaði við veiðarnar ekki síst í tengslum við minkaveiðar þegar haft er í huga að stærstu og fjölmennustu sveitarfélög landsins, sem helst hafa fjármuni, þurfa ekki glíma við þennan vanda.

Í framhaldi af þeim umræðum sem hófust eftir að ríkið ákvað að draga úr fjárveitingum til refa- og minkaveiða var ákveðið að setja á laggirnar tvær nefndir, aðra sem fjallaði um mink og minkaveiðar m.a. um hugsanlega útrýmingu minks úr íslenskri náttúru og hina sem fjallaði um ref og refaveiðar. Báðar þessar nefndir hafa skilað tillögum sem lagðar hafa verið fram í ríkisstjórn og eru þar til umfjöllunar. Tillögur nefndanna eru ólíkar að því leytinu til að tillögur minkanefndar gera ráð fyrir verulegum lagabreytingum og tilfærslu málaflokksins frá sveitarfélögum til ríkisins auk stórfelldra rannsókna á stofnstærð minksins en tillögur refanefndar eru að notast verði áfram við sama stjórnkerfi og áður en að aukið fé verði sett í veiðarnar af hálfu ríkisins, þ.e.a.s. sama fé og áður, auk þess sem varið verði auknu fé til rannsókna. Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, fjallar nánar um þessar tillögur hér á eftir. Ég vek athygli á því, svo undanlegt sem það kann að hljóma, að nánast engar rannsóknir hafa farið fram á mink hér á landi þótt enginn efist um að minkurinn sé vágestur í íslenskri náttúru. Hér ber að hafa í huga að um margra áratuga skeið hefur verið reynt að eyða honum og til þess hefur verið varið hundruðum milljónum króna án þess að menn gerðu sér nægjanlega grein fyrir við hvaða vanda væri að glíma. Refarannsóknir hafa hins vegar verið stundaðar með markvissum hætti á undanförnum áratugum á tilteknu svæði þ.e.a.s. á Hornströndum en gera þarf betur. Draga má því þá ályktun að þeir fjármunir sem farið hafa til refa- og minkaveiða hafi ekki skilað sér. Allavega er ljóst að ekki er hægt að meta árangurinn. Ég tel afar mikilvægt að stjórnvöld sem og hagsmunaaðilar sem hér eiga hlut að máli hafi sem gleggstar upplýsingar um vandann og leiðin til þess er að markvissar rannsóknir á stofnstærð minks og refs verði framkvæmdar sem fyrst. Það er útilokað að takast á við þetta vandamál af alvöru ef t.d. ekki liggur fyrir hvort minkastofninn er 8000 dýr að hausti eða 40000 dýr hvað þá meira eins og heyrst hefur.

Ágætu fundarmenn ég hef hér að framan drepið á þau atriði sem ég veit að brenna á ykkur í Æðarræktarfélagi Íslands og varða starfsemi umhverfisráðuneytisins. Ég mun eftir fremsta megni beita mér fyrir því að niðurstaða fáist í þessi mál á næstunni þannig að afstaða ríkisstjórnarinnar liggi fyrir um tillögur þeirra tveggja nefnda sem áður eru getið. Ég óska félaginu velfarnaðar í störfum sínum og eftir góðu og nánu samstarfi til þess að tryggja þá hagsmuni sem hér eru í húfi og að hlunnindi þau sem við höfum haft af æðarfugli í gegnum aldirnar haldist og helst aukist enda um veruleg verðmæti að ræða.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta