Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2004 Matvælaráðuneytið

23. ársfundur Norð-Austur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar.

Fréttatilkynning

Föstudaginn 12. nóvember síðastliðinn lauk í London 23. ársfundi Norð-Austur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, norsk íslenskri síld, kolmunna og makríl fyrir árið 2005.

Á fundinum var kynnt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni felst að haga eigi stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að um tvö aðskilin veiðisvæði sé að ræða, annað innan og við lögsögumörk Íslands og hitt sunnan við Hvarf á Grænlandi (oft kallað "neðri karfi" og "efri karfi"). Eins og undanfarin ár lagði ICES til að veiðum yrði stjórnað þannig að ekki væri hætta á að karfi yrði ofveiddur á öðru hvoru veiðisvæðinu. Sem kunnugt er hafa úthafsveiðar Íslendinga að mestu leyti beinst að "neðri karfa" þar til á síðustu árum er veiðum hefur einhliða verið stjórnað í samræmi við ráðgjöf ICES, en stjórnun NEAFC hefur ávallt farið með karfann sem eina stjórnunareiningu.

Á fundinum var samstaða meðal strandríkjanna, Íslands og Danmerkur fyrir hönd Grænlands og Færeyja, um að nauðsynlegt væri að breyta stjórnun veiðanna þannig að sett yrðu tvö aðskilin aflahámörk. Úthafsríkin, ESB og Rússland, voru ósammála strandríkjunum og lagði ESB fram eigin tillögu sem fól ekki í sér formbreytingu á stjórn veiðanna. Tilraunir til að ná sáttum skiluðu ekki árangri og fengu því hvorug tillagan nógu mikinn stuðning til að hljóta samþykki ársfundarins. Aðilar málsins voru þó sammála um að halda viðræðum áfram að fundi loknum, með það að markmiði að samþykkja stjórnunarráðstafanir varðandi úthafskarfaveiðar árið 2005 á vettvangi NEAFC.

Norðmenn hafa undanfarin misseri haldið á lofti kröfu um að skipting aflaheimilda milli strandríkja í norsk-íslenskri síld (Ísland, Noregur, Færeyjar, Rússland og ESB) verði endurskoðuð. Af þessum sökum náðist ekki alþjóðlegt samkomulag um stjórn síldveiða á árinu 2004, en einhliða veiðitakmarkanir ríkja tóku þó mið af samkomulaginu sem áður var í gildi fyrir NEAFC-ríkin. Ekki hefur enn tekist að gera strandríkjasamning um síldveiðarnar árið 2005 og var því engin stjórnunarráðstöfun um síld samþykkt á ársfundi NEAFC að þessu sinni.

Ekki náðist heldur samkomulag um skiptingu veiðiheimilda í kolmunna og stefnir því í að veiðum á árinu 2005 verði áfram stjórnað einhliða af hverri aðildarþjóð fyrir sig. Hins vegar verður viðræðum haldið áfram milli aðila á næstunni og reynt til þrautar að ná samkomulagi enda hefur veiði undanfarinna ára verið langt umfram ráðgjöf ICES.

Samþykkt var tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Á fundinum var gerð samþykkt um vernd viðkvæmra hafsvæða. Fimm afmörkuðum svæðum var lokað fyrir botnvörpuveiðum og veiðum með staðbundnum veiðarfærum. Markmið lokunarinnar er að vernda viðkvæm búsvæði í hafinu, þ.á.m. kóralsvæði. Lokunin er til þriggja ára, en stefnt er að því að fyrir þann tíma hafi NEAFC lokið við að móta framtíðarreglur varðandi vernd viðkvæmra hafsvæða.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 15. nóvember 2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta