Umræða um fátækt og þróunarmál á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York flutti, við almenna umræðu í 2. nefnd allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna þriðjudaginn16. nóv., ávarp um fátækt og þróunarmál. Hann tók undir ræðu sem fulltrúi Hollands flutti fyrir hönd ESB og lagði svo sérstaka áherslu á málefni kvenna. Önnur nefnd fjallar um þróunar-, umhverfis- og efnahagsmál.
Í nýrri skýrslu Aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um konur og þróun, sem kynnt var formlega á fundinum, er sérstök áhersla lögð á flutninga kvenna milli landa og mansal. Í ávarpi sínu sagði fastafulltrúinn m.a. að misrétti kynjanna gæti bæði verið orsök og afleiðing þess að fólk flyttist milli landa. Að tryggja jafnrétti kynjanna væri því mikilvægur þáttur í því að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar fólksflutninga. Hann benti jafnframt á það að ástæða væri til að ætla að glæpamenn hefðu augastað á Íslandi sem flutningsland eða "transit" stað og að stjórnvöld á Íslandi hefðu brugðist við því með ýmsum hætti.
Ræða fastafulltrúa (á ensku).