Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 2004
Í dag, þriðjudaginn 16. nóvember var hátíðardagskrá í Safnahúsinu á Ísafirði þar sem afhent voru Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2004 og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslenskrar tungu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita Silju Aðalsteinsdóttur Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2004. Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: „ Silja hefur lengi sinnt íslenskri tungu og menningu af dugnaði, metnaði og alúð. Árið 1981 kom út eftir hana íslensk barnabókmenntasaga, sú eina sem skrifuð hefur verið hér á landi og mikið brautryðjendaverk en þar er fjallað um íslenskar barnabækur 1780-1979. Silja vakti mikla athygli ungs fólks fyrir bók sína um Bubba árið 1990 en eitt merkasta rit hennar er án efa ævisaga Guðmundar Böðvarssonar en fyrir þá bók hlaut hún Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1994.
Silja var ritstjóri Tímarits Máls og menningar á miklum blómatíma þess. Þegar til stóð að leggja niður TMM í fyrra tók hún það upp á arma sína og sér nú ein um að koma því út. Silja hafði í allmörg ár umsjón með menningarsíðum DV og var í forsvari fyrir menningarverðlaunum blaðsins. Hún skrifaði sjálf fjölda greina og sinnti gagnrýni. Umfjöllun blaðsins um menningarmál vakti athygli langt út fyrir lesendahóp blaðsins og hafði mikil áhrif á umræðu í landinu. Silja hefur verið barnabókaritstjóri, afkastamikill þýðandi og er afbragðs upplesari. Einkennandi fyrir allt hennar starf er víðsýni, frjó hugsun og, umfram allt, smitandi áhugi.
Í reglum um verðlaunin segir að verðlaunahafi skuli hafa unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Í ljósi þessa telur nefndin að Silja sé einkar verðugur verðlaunahafi á degi íslenskrar tungu." Fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu hlýtur Silja Aðalsteinsdóttir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2004.
Verðlaunin eru 500 þús. kr. og ritsafn Jónasar Hallgrímssonar í skinnbandi. Menningarsjóður
Íslandsbanka og Sjóvá-Almennra leggur til verðlaunin.
Viðurkenningar: Í reglum menntamálaráðuneytis um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu segir að auk Verðlauna Jónasar Hallgrímssonar sé heimilt að veita sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu.
Menntamálaráðherra hefur ákveðið að veita tvær viðurkenningar 2004.
Önnur er veitt Kvæðamannafélaginu Iðunni og hin er veitt Strandagaldri.
Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir:
1. „Kvæðamannafélagið Iðunn var stofnað 15. september árið 1929 og hefur tilgangur þess frá upphafi verið að æfa kveðskap og safna rímnalögum og alþýðuvísum. Félagið hefur um áratuga skeið haldið á lífi sérstæðum kvæða- og tónlistararfi Íslendinga og gefið ungu fólki tækifæri til að kynnast honum. Á 75 ára afmæli sínu, hinn 15. september sl. gaf félagið út fjóra geisladiska með 200 fyrstu stemmunum sem teknar voru upp á silfurplötur á árunum 1935-1936. Slík útgáfa er ómetanleg heimild um þennan menningararf. Kvæðamannafélagið Iðunn fær viðurkenningu fyrir starf sitt á degi íslenskrar tungu 2004."
2. „Strandagaldur er menningar- og fræðslustofnun. Tilgangur hennar er að standa að rannsóknum og draga saman vitneskju um galdraöldina á Íslandi, þjóðsagnir, hugmyndaheim og menningararf Strandasýslu sem tengist göldrum, á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Stefnt er að stofnun fræðaseturs um menningararf Strandamanna.
Strandagaldur stendur fyrir fjölbreyttri starfsemi. Þekktust er líklega Galdrasýning á Ströndum, lifandi og skemmtileg sýning á Hólmavík og í Bjarnarfirði. Sýningin var einnig sett upp í Norræna húsinu í október sl. og voru margvíslegir menningarviðburðir skipulagðir í tengslum við hana líkt og gert er í heimabyggð. Strandagaldur hefur gefið út fræðsluefni um hjátrú og galdra, í bókarformi, á geisladiskum og á vönduðum vef, og má sérstaklega nefna nýlegan margmiðlunardisk um íslensk galdramál og þjóðtrú tengda göldrum sem tilnefndur var af Íslands hálfu sem besti diskurinn í flokki menningar.
Starfsemi Strandagaldurs hefur einkennst af miklum metnaði og fagmennsku. Heimamenn hafa á að skipa sérfræðingum um þjóðfræði og bókmenntir. Þeir hafa ásamt öðrum unnið fórnfúst og óeigingjarnt starf og fengið til liðs við sig færustu sérfræðinga. Óhætt er að fullyrða að starfsemi Strandagaldurs hafi blásið lífi í áhuga fólks á menningu Strandamanna og þeim fróðleik um kveðskap, náttúru og sögu sem því fylgir. Fyrir þetta fær Strandagaldur viðurkenningu á degi íslenskrar tungu 2004."
Viðurkenningarhafar fá listaverk eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur.
Í ráðgjafarnefnd um verðlaun og viðurkenningar á degi íslenskrar tungu sitja Baldur Sigurðsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sveinn Yngvi Egilsson.
Nánari upplýsingar veitir Ari Páll Kristinsson, Íslenskri málstöð ([email protected]; s. 525-4441, 897-1804). Á vef dags íslenskrar tungu eru frekari upplýsingar um verðlaunin, hátíðardagskrána og aðra viðburði undir merkjum dagsins og á vef íslenskrar málstöðvar.