Hoppa yfir valmynd
18. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Kýótó-bókun Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna gengur í gildi þann 16. febrúar 2005

Rússnesk stjórnvöld staðfestu í dag Kýótó-bókunina. Þar með er ljóst að Kýótó-bókunin mun taka gildi þann 16. febrúar 2005. Bókunin felur í sér lagalega bindandi ákvæði fyrir þau 128 ríki sem nú þegar hafa fullgilt bókunina. Íslensk stjórnvöld fullgiltu Kýótó-bókunina þann 23. maí 2002.

Samkvæmt Kýótó-bókunni skuldbinda 30 iðnríki, þ.á.m. Ísland, sig til þess að halda útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008–2012 innan útstreymisheimilda sem eru 5,2% lægri en útstreymið á árinu 1990. Skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókunni eru tvíþættar. Annars vegar skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3.650 þúsund tonn koltvíoxíðsígilda árlega að meðaltali á tímabilinu 2008-2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðsútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fellur undir sérstakt ákvæði (svokallað "íslenska ákvæði") ekki vera meira árlega en 1.600 þús. tonn að meðaltali árin 2008-2012.

Aðgerðir ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum miða við að Ísland uppfylli skilyrði skuldbindingar sinnar gagnvart Kýótó-bókuninni. Árið 1990 var heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi um 3,3 milljónir tonna. Árið 2002 var heildarútstreymið orðið 3,6 milljónir tonna og hafði því aukist um 9% á tímabilinu. Sé staðan metin í ljósi ákvæða Kýótó-bókunarinnar (tillit tekið til bindingar gróðurhúsalofttegunda með skógrækt og landgræðslu og “íslenska ákvæðisins”) kemur í ljós að nettólosun gróðurhúsalofttegunda miðað við almennar losunarheimildir Íslands hefur dregist saman um tæp 9% frá 1990 til 2002.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta