Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2004 Utanríkisráðuneytið

Haag-samningur um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala

Haag-samningur um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala frá 5. október 1961 öðlast gildi að því er Ísland varðar 27. nóvember nk. Nú hafa 86 ríki gerst aðilar að samningnum.

Með samningnum skuldbinda samningsríkin sig til að undanþiggja opinber skjöl sem gerð eru í einu samningsríki frá staðfestingu í öðru samningsríki sem skjölin eru lögð fram í. Þess í stað má, í því ríki þar sem leggja á fram erlent opinbert skjal, aðeins krefjast þess að bætt sé við skjalið vottorði („apostille") útgefnu af þar til bæru yfirvaldi þess ríkis sem skjalið stafar frá.

Samkvæmt framkvæmdinni hingað til hafa aðilar, sem hyggjast framvísa íslenskum opinberum skjölum erlendis, þurft að fá svokallaða tvöfalda staðfestingu. Í því felst að þegar íslenskt yfirvald hefur vottað eða gefið út tiltekið skjal þarf sá sem hyggst leggja skjalið fram erlendis að 1) fá staðfestingu utanríkisráðuneytisins um að þar til bært yfirvald hafi gefið skjalið út eða vottað það, og svo 2) fá staðfestingu sendiráðs viðkomandi ríkis gagnvart Íslandi hérlendis, eða, í samræmi við reglur viðkomandi ríkis, fá staðfestingu ræðisskrifstofu viðkomandi ríkis hérlendis eða senda skjalið til staðfestingar sendiráðs viðkomandi ríkis gagnvart Íslandi.

Með aðild að samningnum fellur krafan um tvöfalda staðfestingu opinberra skjala niður gagnvart samningsríkjunum. Aðilar, sem hyggjast leggja fram opinbert skjal í öðrum samningsríkjum, þurfa einungis að fá gefið út vottorð frá tilnefndu yfirvaldi um að viðkomandi skjal hafi verið vottað eða gefið út af þar til bæru yfirvaldi. Utanríkisráðuneytið mun gefa út vottorð samkvæmt samningnum.

Staðfesting opinberra skjala sem nota á erlendis getur verið tímafrekt og kostnaðarsamt ferli og geta íslenskir aðilar með umsvif eða búsetu erlendis því haft mikinn hag af aðild Íslands að samningnum.

Eftir sem áður mun framkvæmdin sem tíðkast hefur hingað til haldast óbreytt þegar opinber skjöl eru lögð fram í ríkjum sem ekki eru aðilar að samningnum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta