Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýjar áherslur í vistvænum innkaupum

Þórhallur Arason, Geir Haarde, Sigríður Anna Þórðardóttir, Viljhjálmur Þ Viljálmsson, Júlíus S. Ólafsson á ráðstefnu Ríkiskaupa um vistvæn innkaup
radstefna rikiskaupa

Erindi Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra,

á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa 2004

Ágætu ráðstefnugestir

Umhverfisráðuneytið gaf út fyrir sjö árum ritið Umhverfisstefna í ríkisrekstri, sem byggði á samþykkt ríkisstjórnarinnar um sama efni. Umhverfisvæn innkaup ríkisins voru liður í þessari stefnu. Fyrir fjórum árum gaf umhverfisráðuneytið svo út sérstakt rit um umhverfisvæn innkaup. Ríkið hafði ekki áður mótað markvissa stefnu í þessum efnum og það er því ljóst að hugmyndin um umhverfisvæn eða vistvæn innkaup er enn ný af nálinni hjá ríkinu.

En hugmyndin er raunar ekki aðeins ný hjá ríkinu, því að hún er líka ný hjá sveitarfélögunum, í atvinnulífinu og hjá fólki almennt. Segja má að með stefnumörkun sinni gangi ríkið á undan með góðu fordæmi. Það beitir kaupmætti sínum til að hvetja seljendur vöru til að bjóða vistvæna vöru og það beitir áhrifamætti sínum til að hvetja kaupendur til að fylgja fordæmi sínu. Í þessu sambandi má hafa í huga að hið opinbera er verulega stór neytandi eða kaupandi vöru, með um fimmtung allra innkaupa í þjóðfélaginu. Það er því ljóst að eftir miklu er að slægjast fyrir framleiðendur að bjóða vörur sem falla að vistvænni innkaupastefnu ríkisins. Áhrifin sem ríkið hefur eru misjafnlega mikil eftir því um hvaða vörur er að ræða, en þau eru til að mynda mjög mikil þegar kemur að ýmsum skrifstofuvörum, svo sem tölvum. Tölvur eru ekki allar eins í þessu tilliti frekar en aðrar vörur og mikilvægt að horft sé til þessa þáttar við tölvukaup ríkisins, en þau eru afar mikil. Með þessari stefnu og þeim áhrifum sem ríkið getur haft með henni getur það þess vegna náð þeim markmiðum sínum að auka hlutfallslega notkun umhverfisvænna vara án þess að grípa til reglusetningar eða annarra íþyngjandi aðgerða. Vistvæn innkaupastefna ríkisins er þess vegna vel heppnuð og jákvæð í ýmsu tilliti. Með því að taka fyrstu skref í innleiðingu vistvænna innkaupa er ríkisvaldið að ganga á undan og sýna í verki fordæmi sem ég vænti að fyrirtæki og einstaklingar taki upp. Minnumst þess að umhverfisvernd er í þágu okkar allra og öll berum við því sameiginlega ábyrgð.

Þórólfur Sveinsson, Hrafnhildur Á. Þorvaldsdóttir og Finnur Sveinsson umhverfisráðgjafi á ráðstefnu ríkiskaupa 23.11.2004Áður en lengra er haldið er rétt að skilgreina hvað felst í hugtakinu vistvæn innkaup. Innkaup eru vistvæn ef keypt er sú vara sem er síst skaðleg umhverfinu af þeim vörum sem að öðru leyti standa jafnt að vígi, þ.e. uppfylla sömu þarfir og kosta það sama. Og rétt er að vekja athygli á því að þegar rætt er um kostnað í þessu sambandi er jafnan átt við það sem kallað er líftímakostnaður, þ.e. kostnaður sem fylgir vörunni yfir allan líftíma hennar, en ekki aðeins það sem varan kostar í upphafi. Það vill nefnilega stundum gleymast í þessu eins og öðru að mikilvægt er að kasta ekki krónunni til að spara eyrinn. Niðurstaða vistvænna innkaupa á ekki að vera að kaupa dýrt, eins og mörgum dettur eflaust í hug þegar rætt er um umhverfisvænar vörur, heldur að kaupa af skynsemi og skoða heildarmyndina. Þegar horft er á allan kostnað við vörukaup en ekki aðeins stundarútgjöld, geta umhverfisvænar vörur hæglega verið ódýrari en þær sem ekki teljast umhverfisvænar. Þegar þessari stefnu er fylgt við innkaup er afar ólíklegt að hagstætt reynist að kaupa einnota vörur. Vandaðar vörur sem endast lengi geta þvert á móti komið best út þegar litið er til líftímakostnaðar en þegar aðeins er horft til útlagðs kostnaðar við kaup vörunnar.

Líftímakostnað má skilgreina með ýmsum hætti og hægt er að leggja út í misjafnlega flókna útreikninga til að fá hann fram. En þótt útreikningar á líftímakostnaði geti verið afar flóknir og þannig nánast staðið í vegi fyrir því að þessari aðferð sé beitt ef ýtrustu kröfur væru gerðar um nákvæmni útreikninga, má með einföldum hætti fá ágæta nálgun sem er að minnsta kosti mun betra en að líta aðeins á innkaupakostnaðinn sjálfan. Þannig væri við einfaldan útreikning á líftímakostnaði tekinn með allur kostnaður við innkaup, þar með talinn afhendingarkostnaður, uppsetningarkostnaður og svo framvegis. Þá þarf að taka með í reikninginn hvað rekstur vörunnar kostar, svo sem orkukostnaður og viðhaldskostnaður. Loks þarf að taka tillit til þess hve dýrt verður að losa sig við vöruna að notkun lokinni, þ.e. hver úrgangskostnaðurinn er.

Einnig þarf eftir því sem unnt er að líta til þess kostnaðar sem varan leggur á umhverfið en ekki er greitt fyrir sérstaklega, hvorki í upphafi né síðar á líftíma vörunnar. Þessi kostnaður er kallaður ytri kostnaður og hann leggst á þriðja aðila, en ekki sérstaklega á þá sem eru aðilar að viðskiptunum. Sem dæmi má nefna mengun eða hugsanlega ofnotkun auðlinda, svo sem ef keyptur er pappír sem framleiddur er úr trjám sem vaxið hafa í skógi sem ekki er nýttur á sjálfbæran hátt.

Með þessu er ég einmitt komin að lykilhugtaki í þessu öllu, en það er hugtakið sjálfbær þróun, sem fyrst komst á dagskrá á heimsráðstefnunni í Rio de Janero árið 1992. Um sjálfbæra þróun var svo ýtarlega fjallað á sérstakri heimsráðstefnu í Jóhannesarborg fyrir tveimur árum, þar sem yfirvöld voru hvött til þess að taka sjálfbæra þróun með í reikninginn og fylgja innkaupastefnu sem hvetti til þróunar og útbreiðslu umhverfisvænnar vöru og þjónustu.

Ríkið kaupir mikið og það hendir líka miklu, enda er það eins og áður sagði afar stór neytandi á markaðnum. Þess vegna er mikilvægt fyrir ríkið að skilgreina vel þarfir sínar og gæta þess að kaupa ekkert að óþörfu. En það er líka mikilvægt að nýta vel það sem keypt er um leið og minna er keypt. Ein leið sem ég tel að sé athyglisverð er farin í finnsku borginni Pori við Eystrasaltið. Þar hafa borgaryfirvöld komið sér upp endurvinnslukerfi með því að setja upp tilkynningatöflu á Netinu. Starfsmenn sem eru hættir að nota tiltekinn skrifstofubúnað geta boðið öðrum starfsmönnum hann á tilkynningatöflunni í stað þess að setja hann inn í geymslu þaðan sem hann á aldrei afturkvæmt og endar að nokkrum árum liðnum í ruslinu. Með aðferð á borð við þessa má draga úr innkaupum um leið og dregið er úr myndun úrgangs.

Í Umhverfisstefnu í ríkisrekstri segir að við innkaup á vöru sé rétt að athuga hvort hún sé merkt með viðurkenndu umhverfismerki, svo sem merki Evrópusambandsins eða norræna umhverfismerkinu, Svaninum, eða uppfylli þær kröfur sem þar eru gerðar. Fleiri gagnleg merki mætti nefna, svo sem Bláa engil Þýskalands. Ef þess er gætt að vara uppfylli þær kröfur sem þeir sem gefa út þessi merki gera, er það nokkuð góð trygging fyrir því að varan er vistvæn. Þessar merkingar ganga út frá líftímakostnaði vörunnar og eru gefnar af þriðja aðila en ekki af framleiðandanum sjálfum.

Annars konar merki eru einnig til, en þau líta ekki á vöruna og líftíma hennar í heild, heldur horfa aðeins til ákveðins þáttar. Sem dæmi um ágætan árangur af notkun á slíku merki er ákvörðun ríkisstjórnar Bandaríkjanna árið 1993 að kaupa aðeins raftæki sem hefðu merkingu Orkustjörnunnar, eða Energy star. Alríkið bandaríska er stærsti einstaki tölvukaupandi í heiminum og áætlað er að þessi ákvörðun hafi átt ríkan þátt í því að langstærstur hluti tölvubúnaðar á markaðnum fór að uppfylla kröfur Orkustjörnunnar. Reiknað hefur verið út, að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafi sparað 200 milljarða kílóvattstunda (kWh) af orku frá árinu 1995, sem jafngildir 22 milljónum tonna af koltvíildi (CO2). Þetta magn svarar til rúmlega sex ára losunar á gróðurhúsalofttegundum á Íslandi.

Margar vörur hafa engin umhverfismerki eða aðeins umhverfismerki sem ekki eru þekkt hér á landi og ekki er vitað hvernig á að túlka. Seljendum slíkra vara má engu að síður gefa tækifæri til að útskýra áður en ákvörðun er tekin um kaup, að hve miklu leyti varan uppfyllir kröfur þekktra merkja séu þær á annað borð til fyrir viðkomandi vöruflokk.

Endurvinnsla er mikilvæg í umræðum um umhverfismál. Þar skiptir tvennt máli við innkaup, annars vegar hlutfall endurunninna efna sem notuð eru við framleiðslu vörunnar, því almennt er kostur að hlutfallið sé sem hæst. Hins vegar skiptir máli að hversu miklu leyti varan sjálf er endurvinnanleg eða endurnýtanleg og þá helst heima fyrir. Endurvinnsla og endurnýting dregur úr úrgangi og hráefnisnotkun og er þess vegna æskileg út frá umhverfissjónarmiði. Ef hægt er að endurvinna eða endurnýta vöruna hér á landi þá er það sérstakur kostur, því að það dregur úr flutningum með vöruna og minnkar þannig kostað og orkunotkun við endurvinnsluna.

Umbúðir vöru eru annað sem hafa þarf í huga við innkaup, en eins og allir þekkja eru umbúðir oft miklar, sér í lagi þegar verið er að kaupa tölvubúnað. Þess vegna ætti að spyrja seljanda út í endurvinnslu umbúðanna og eins hvort hægt sé að pakka í minna magn umbúða ef keyptir eru margir hlutir af sömu gerð.

Sjálfsagt er einnig að kanna hvort seljandinn hefur markað sér umhverfisstefnu eða jafnvel fengið umhverfisvottun. Enn sem komið er hafa aðeins örfá íslensk fyrirtæki fengið alþjóðlega viðurkennda umhverfisvottun, en fleiri hafa sett sér umhverfisstefnu og huga þannig að umhverfi sínu í öllum daglegum rekstri. Flest erlend stórfyrirtæki hafa einnig slíka stefnu og þetta er eitt af því sem hafa ætti í huga við vistvæn innkaup ríkisins.

Ágætu ráðstefnugestir

Það getur verið bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að koma sér upp vottuðu gæðakerfi í umhverfismálum, hvort sem þar er um að ræða hið alþjóðlega ISO 14.001 eða hið evrópska EMAS. Engin ástæða er þó til að láta þetta hindra sig í að stíga fyrstu skrefin í átt að vistvænum innkaupum. Í þeim leiðbeiningum sem umhverfisráðuneytið hefur gefið út er lögð áhersla á að byrja á fáum vöruflokkum. Flestar stofnanir eða fyrirtæki kaupa inn tugi eða hundruð tegunda vöru og þjónustu en kaupa annaðhvort langmest af tilteknum vörum eða þá að tilteknar vörur hafa augljóslega mikil umhverfisáhrif. Þannig má til að mynda byrja á pappír, hreinlætisvörum, skrifstofuvélum og svo framvegis, en fær sig síðan með tímanum yfir í aðra flokka.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að greina þörfina fyrir vöru áður en ráðist er í innkaup. Vera má að hægt sé að bæta úr þörfinni með öðrum hætti en með innkaupum og þá er það auðvitað best fyrir umhverfið, því að hversu vistvæn sem vara er, þá er vissulega best fyrir umhverfið ef hægt er að spara sér hana alfarið. Í þriðja lagi er ástæða til að leita upplýsinga um helstu umhverfismerki og hvaða skilyrði vörur þurfa að uppfylla til að standast þær kröfur sem merkin setja.

Loks er mikilvægt að hafa í huga gamalt og gott ráð um að nýta vel það sem keypt er. Þannig má auðveldlega leggja talsvert af mörkum með því að láta ljós ekki loga að óþörfu að næturlagi eða með því að nota ekki meira af pappír en nauðsyn krefur, en eins og við vitum öll hefur pappírsnotkun aukist mikið með tölvuvæðingunni enda er nú afar auðvelt að prenta út tugi eða hundruð blaðsíðna, sem áður hefði tekið óratíma að vélrita. Í þessu felast mikil þægindi, en þetta gerir líka þær kröfur til okkar að við leiðum hugann að þessu áður en við gefum prentaraskipunina og veltum því jafnvel fyrir okkur hvort okkur nægir að eiga efnið á rafrænu formi og lesa það af skjánum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að meðal helstu markmiða hennar er að Ísland verði áfram forystuþjóð í umhverfismálum. Þar segir einnig að unnið verði að því að auka ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í umhverfismálum. Liður í að ná þessum markmiðum er að ríkið sýni áfram frumkvæði í vistvænum innkaupum og hvetji þannig aðra til að fylgja fordæmi sínu. Þannig séu seljendur hvattir til að bjóða umhverfisvænar vörur og kaupendur hvattir til að kaupa slíkar vörur.

Eins og ég sagði hér í upphafi eru vistvæn innkaup enn að slíta barnsskónum og mikil vinna er framundan bæði hjá ríkinu og öðrum áður en fólk hefur tamið sér þá hugsun og tekið upp þau vinnubrögð sem felast í þessu hugtaki. Ég tel mikilvægt að þessi mál þróist í rétta átt og vil þess vegna að lokum þakka Ríkiskaupum fyrir það tækifæri að fá að fjalla um vistvæn innkaup hér á þessari ráðstefnu. Ég vil ennfremur þakka Ríkiskaupum fyrir þann mikla áhuga sem þau hafa sýnt vistvænum innkaupum og afar ánægjulegt og gefandi samstarf sem umhverfisráðuneytið hefur átt við Ríkiskaup um málefnið. Ég vona að ráðstefnan verði þátttakendum gagnleg og bæti innkaup ríkisins, hvort sem er í almennu tilliti eða vistvænu.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta