Viðræðum fram haldið um Hatton Rockall-málið
Hinn 22. nóvember sl. fóru fram í Lundúnum viðræður Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerkur f.h. Færeyja um Hatton Rockall-málið. Sem kunnugt er hafa ríkin fjögur öll gert tilkall til landgrunnsréttinda utan 200 sjómílna á Hatton Rockall-svæðinu og skarast kröfur aðila eins og meðfylgjandi mynd sýnir.
Viðræðurnar voru jákvæðar og gagnlegar og var ákveðið að halda næsta viðræðufund aðila í Þórshöfn í Færeyjum á vormánuðum. Formaður íslensku viðræðunefndarinnar er Tómas H. Heiðar, þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu, en Steinar Þór Guðlaugsson, jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum, tekur einnig þátt í viðræðunum af Íslands hálfu.
Aðilum er ljóst að til þess að lausn náist um afmörkun landgrunns á Hatton Rockall-svæðinu þarf tvennt að koma til. Annars vegar þurfa ríkin fjögur að komast að samkomulagi um skiptingu landgrunnsins sín á milli eða um að landgrunnið eða hlutar þess verði sameiginlegt nýtingarsvæði. Hins vegar þurfa ríkin sameiginlega að leggja greinargerð eða greinargerðir fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna um ytri mörk landgrunnsins, þ.e. mörkin milli landgrunnsins og alþjóðlega hafsbotnssvæðisins, og ákvarða þau með hliðsjón af tillögum landgrunnsnefndarinnar.