Eftirlitsstofnun EFTA hefur lokið meðferð kvörtunar vegna Kárahnjúkavirkjunar
Í apríl 2003 tilkynnti Eftirlitsstofnun EFTA umhverfisráðuneytinu að borist hefði kvörtun þess efnis að íslenska ríkisstjórnin hafi ekki við mat á umhverfisáhrifum vegna Kárahnjúkavirkjunar farið eftir tveimur tilskipunum Evrópusambandsins. Þar er um að ræða tilskipun nr. 85/337/EEB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið með áorðnum breytingum og tilskipun nr. 90/313/EEB um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Umhverfisráðherra úrskurðaði um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar þann 20. desember 2001.
Með bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA dags. 23. nóvember sl. kemur fram að eftir að hafa skoðað kvörtunina og að fengnum upplýsingum frá íslenska ríkinu hafi hún ákveðið að ljúka málinu án frekari aðgerða.
Þess má geta að úrskurður þessi hefur þegar verið til meðferðar á báðum dómsstigum hér á landi þar sem gerð var sú krafa að úrskurður umhverfisráðherra vegna Kárahnjúkavirkjunar yrði ómerktur. Í niðurstöðu Hæstaréttar frá 22. janúar 2004, mál nr. 280/2003 var staðfest niðurstaða héraðsdóms, þar sem kröfu um ómerkingu úrskurðarins var hafnað.
Fréttatilkynning nr. 44
Umhverfisráðuneytið