Hoppa yfir valmynd
1. desember 2004 Matvælaráðuneytið

Fleiri konur í framkvæmdastjórn íslenskra fyrirtækja en á Norðurlöndunum en færri í stjórnum.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 24/2004

Fréttatilkynning

Fleiri konur í framkvæmdastjórn íslenskra fyrirtækja en á Norðurlöndunum en færri í stjórnum.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var þátttakandi á fréttamannafundi í Osló í dag í tilefni af útgáfu skýrslu um hlut kvenna í stjórnum og framkvæmdastjórn 500 af stærstu fyrirtækjum á Norðurlöndunum (Nordic 500).

Hlutfall kvenna í stjórnum stærstu fyrirtækja á Norðurlöndunum er 16,5%. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 13,6% og í Bretlandi 11,8%. Á Norðurlöndunum er hlutfallið hæst í Noregi 22%, í Svíþjóð 19%, í Finnlandi 13%, í Danmörku 12% og á Íslandi 11%. Ef einungis eru tekin fyrirtæki skráð í kauphöllum þá er hlutfallið langlægst á Íslandi, eða 5% á móti 18% að meðaltali á Norðurlöndunum. Noregur og Svíþjóð eru einu Norðurlöndin sem hafa tekið þá ákvörðun að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum með lagasetningu.

Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn íslenskra fyrirtækja sem voru í úrtaki þessarar norrænu rannsóknar var hins vegar hærra á Íslandi, 15%, en að meðaltali á Norðurlöndunum, 12%.

Tvær íslenskar konur, Rannveig Rist og Kristín Jóhannesdóttir, eru í hópi þeirra 10 kvenna sem valdar hafa verið af Nordic 500 sem áhrifamestu konur í stjórnum fyrirtækja á Norðurlöndum.

Valgerður Sverrisdóttir sagðist á fundinum telja að lágt hlutfall kvenna í stjórnum á Íslandi mætti rekja til þess að fjármagnseigendur væru fyrst og fremst karlar og þeir litu ekki út fyrir sitt sterka en einsleita tengslanet við val á stjórnarmönnum. Valgerður greindi frá því starfi sem nú er hafið í ráðuneytinu í nefnd undir forystu Þórs Sigfússonar, framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, um að fjölga tækifærum kvenna í forystu íslenskra fyrirtækja. Með ýmsum aðgerðum verður reynt að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum á aðalfundum fyrirtækja á fyrri hluta næsta árs m.a. með viðtölum og fundum með forystumönnum og konum í íslensku viðskiptalífi.

Á fundinum lagði Eyvind Reiten, forstjóri Norsk Hydro, áherslu á að í alþjóðlegri samkeppni skipti fjölbreytni sköpum. Fyrirtæki þyrftu á starfsmönnum að halda með ólíkan bakgrunn og þekkingu til að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Fleiri konur í stjórnum ætti ekki að vera hluti af pólitískri rétthugsun heldur einfaldlega nauðsynleg til að auka hagnað fyrirtækja.

Íslensku fyrirtækin í athuguninni voru 14. Þau voru: Actavis, Alcan, Atlanta, Baugur, Íslandsbanki, KB banki, Landsbanki, Landssími, Landsvirkjun, Olíufélagið, Opin Kerfi, Orkuveita Reykjavíkur, Samherji og Samskip.

Reykjavík, 1. desember 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta