Hoppa yfir valmynd
6. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fuglar ekki í hættu vegna Kárahnjúkavirkjunar og Norðlingaölduveitu

Fastanefnd Bernarsamningsins um vernd villtra dýra, plantna og vistgerða í Evrópu hélt sinn árlega fund í Strasbourg í Frakklandi 29. nóvember – 3. desember sl. Í fastanefndinni eiga sæti fulltrúar allra 45 aðildarríkja samningsins, en fulltrúar alþjóðastofnana og áhugasamtaka um náttúruvernd í Evrópu hafa seturétt og málfrelsi á þessum árlegum fundum aðildarríkjanna. Fulltrúar Íslands á fundinum voru Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur.

Á fundinum afgreiddi Fastanefndin m.a. kæru nokkurra innlendra og erlendra fuglaverndarfélaga á hendur íslenska ríkinu sem lögð var fram og rædd á fundi nefndarinnar fyrir ári síðan (í desember 2003). Í kærunni var sett fram ásökun um að Ísland væri að brjóta nokkur ákvæði Bernarsamningsins með því að heimila virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka og Norðlingaöldu, sem stofnuðu fuglategundum í hættu sem eru verndaðar af samningnum.

Á fundinum var lögð fram skýrsla frá óháðum sérfræðingi á vegum skrifstofu samningsins um Kárahnjúkavirkjun og Norðlingaölduveitu og líkleg áhrif virkjananna á lífríki á áhrifasvæði þeirra, einkum á fugla. Töluverð umræða varð um málið, en að henni lokinni ályktaði fundurinn að engin fuglategund vernduð af samningnum myndi verða fyrir alvarlegum áhrifum frá virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka eða Norðlingaöldu. Fastanefndin taldi ekki ástæðu til frekari aðgerða og lokaði málinu.

Jón Gunnar Ottósson fulltrúi Íslands í Fastanefndinni var á fundinum kosinn varaformaður Bernarsamningsins og tekur með því sæti í 3 manna stjórn hans.

Fréttatilkynning nr. 46/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta