Hoppa yfir valmynd
6. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tíunda aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Í dag, mánudaginn 6. desember, hófst í Buenos Aires í Argentínu 10. aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, COP 10. Ráðherrafundur þingsins fer fram dagana 15.-17. desember. Umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir situr ráðherrafundinn.

Aðildarríkjaþingið stendur yfir frá 6. til 17. desember og eiga 185 ríki rétt til setu á þinginu. Fulltrúar atvinnulífsins, vísindasamfélagsins og frjálsra félagasamtaka fylgjast með störfum þingsins og eru þátttakendur alls um 4.000 og koma víðs vegar að úr heiminum.

Helstu viðfangsefni þingsins snúa að framkvæmd og útfærslu þeirra skuldbindinga sem fylgja Loftslagssamningnum og Kýótó-bókuninni, en auk þess verða haldin málþing þar sem sérstaklega verður fjallað um aðgerðir til að draga úr loftslagsbreytingum og aðlögun að loftslagsbreytingum.

 

Nú er ljóst að Kýótó-bókunin mun taka gildi þann 16. febrúar 2005. Bókunin felur í sér lagalega bindandi ákvæði fyrir þau 128 ríki sem nú þegar hafa fullgilt bókunina. Losunarskuldbindingar þeirra aðildarríkja sem undir það falla munu koma til framkvæmda á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar árin 2008-2012. Þó að umræður á þinginu muni fyrst og fremst snúast um undirbúning ríkja að framkvæmd bókunarinnar á árunum 2008-2012, þá má gera ráð fyrir að einhverjar umræður fari fram um undirbúning viðræðna um aðgerðir ríkja eftir árið 2012, en fyrir liggur að um það þurfa ríki að semja á næstu árum.

 

Á þinginu verður sérstök kynning á skýrslu Norðurskautsráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum (ACIA-skýrslan). Í skýrslunni er mat lagt á áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum á lífríki og umhverfi, en einnig á efnahagslega og félagslega þætti.

 

Fulltrúar Íslands á aðildarríkjaþinginu eru auk umhverfisráðherra, Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri, Hugi Ólafsson og Óttar Freyr Gíslason frá umhverfisráðuneytinu, og Gunnar Pálsson sendiherra og Axel Nikulásson frá utanríkisráðuneytinu.

 

Nánari upplýsingar veitir Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, í síma 00 54 911 5025 8734.

 

Nánari upplýsingar um aðildarríkjaþingið er hægt að finna á heimasíðu samningsins: www.unfccc.int

 

 

Fréttatilkynning nr. 45/2004
Umhverfisráðuneytið

 


Ítarefni: Loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna - staða Íslands

 

Skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókunni eru tvíþættar. Annars vegar skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3.650 þúsund tonn koltvíoxíðsígilda árlega að meðaltali á tímabilinu 2008-2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðsútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fellur undir sérstakt ákvæði (svokallað „íslenska ákvæði“) ekki vera meira árlega en 1.600 þús. tonn að meðaltali árin 2008-2012.

 

Árið 1990 var heildarútstreymi GHL á Íslandi um 3,3 milljónir tonna. Árið 2002 var heildarútstreymið orðið 3,6 milljónir tonna og hafði því aukist um 9% á tímabilinu. Sé tekið tillit til bindingar GHL með landgræðslu og skógrækt hefur nettóútstreymi aukist um 4% frá 1990.

 

Sé staðan metin í ljósi ákvæða Kýótó-bókunarinnar kemur í ljós að nettólosun GHL miðað við almennar losunarheimildir Íslands hefur dregist saman um tæp 9% frá 1990 til 2002 (sjá mynd 1). Nettólosun skv. þessari forsendu minnkaði um 1% á milli áranna 2001 og 2002.

 

Sé heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda 2002 skipt eftir lofttegundum (sjá mynd 2), þá var útstreymi koltvíoxíðs mest eða um 74% af heildarlosun. Útstreymi metans var 15% af heildarlosun, tvíköfnunarefnisoxíðs 8%, flúorkolefna (PFC) 2% og annarra lofttegunda (HFC og SF6) 1%.

 

Sé útstreymi GHL 2002 skipt eftir atvinnugreinum og öðrum geirum (sjá mynd 3), þá má rekja um 25% þess til iðnaðarferla í stóriðju, en um 9% til eldsneytisbrennslu í iðnaði og byggingarstarfsemi. Um 20% má rekja til fiskveiða og 19% til samgangna. Landbúnaður er uppspretta um 14% útstreymis GHL og fiskimjölsverksmiðjur um 5%. Um 7% útstreymisins er vegna metans frá urðunarstöðum. Binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu nam um 163 þúsund tonnum CO2 árið 2002, en hún vegur á móti útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

 

Meðalútstreymi GHL á hvern mann á Íslandi var 11,7 tonn árið 2002, miðað við þær forsendur við samanburð ríkja sem liggja til grundvallar Kýótó-bókunarinnar. Ísland er 14. í röð 24 iðnvæddra ríkja (þ.e. ríkja sem tilgreind eru í viðauka II í Loftslagssamningnum), hvað varðar magn útstreymis GHL (sjá mynd 4), miðað við árið 2000. Heildarútstreymi á mann er ívið meira ef einnig er tekið með útstreymi frá nýrri stóriðju sem fellur ekki undir almennar losunarheimildir Íslands skv. Kýótó-bókuninni, eða um 12,7 tonn á mann árið 2002.

 

 

 

 

 

Útstreymi gróðurúsalofttegunda að teknu tilliti til bindingar 1990 - 2002.

 

 

 

 

 

Hlutfall heildarútstreymis skipt eftir lottegundum 2002

 

Hlutfall heildarútstreymis skipt eftir geirum 2002

 

 

 

 

Losun gróðurhúsalofttegunda á íbúa árið 2000

 

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta