Hoppa yfir valmynd
7. desember 2004 Innviðaráðuneytið

Nýr DVD diskur um öryggismál sjómanna

Á vegum verkefnisstjórnar um öryggismál sjómanna er komin út nýr DVD diskur um öryggismál sjómanna. Sturla Böðvarsson sendi að því tilefni sjómönnum eftirfarandi kveðju:

Til smábátasjómanna.

Öryggismál sjómanna er stór þáttur í starfi samgönguráðuneytisins. Með öryggi sjómanna að leiðarljósi ákvað ég, sem samgönguráðherra, að hefja vinnu við langtímaáætlun um öryggi sjómanna og skipaði nefnd til þess að vinna að málinu. Áætlunin er nú hluti samgönguáætlunar og unnin í samstarfi við verkefnisstjórn, sem í sitja m.a. fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna.

Eitt verkefna áætlunarinnar er að útbúa kynningarefni fyrir áhafnir skipa. Það helsta eru fræðslumyndir um öryggi sjómanna, lækningabók sjófarenda, fræðslurit um stöðugleika fiskiskipa, vinnuvistfræði fyrir sjómenn og ýmsir fræðslupésar er varða öryggismál sjómanna.

Í desember á síðasta ári komu út tveir DVD-diskar með fræðslumyndum um öryggi sjómanna í einu hulstri. Diskarnir innihalda bæði nýtt og eldra efni, sem áður hafði komið út á myndbandi. Diskunum hefur verið dreift um borð í öll íslensk skip.

Með bréfi þessu fylgir nýr DVD-diskur sem ber heitið ,,Öryggi sjómanna 2". Á honum er að finna þrjár nýjar myndir sem Myndbandavinnslan ehf. og Lífsmynd, kvikmyndagerð Valdimars Leifssonar, hafa gert en þær eru:

  • Öryggi smábáta á fiskveiðum.
  • Sjálfvirk tilkynningarskylda.
  • Sjóstýrður losunarbúnaður gúmmíbjörgunarbáta.

Þá er að finna á disknum eftirfarandi myndir um öryggi sjómanna sem hafa áður komið út á myndbandi:

  • Stöðugleiki fiskiskipa. Samtök útgerða fiskiskipa í Norður-Kyrrahafi (NPFVOA) stóðu að gerð þessarar myndar, en Siglingastofnun Íslands sá um þýðingu og talsetningu myndarinnar árið 2003.
  • Eldur um borð. Myndin var upphaflega gefin út af Myndbæ hf. árið 1994.
  • Í köldum sjó. Myndina gerði Plúsfilm árið 1991.
  • Um björgunarbúninga og gúmmíbjörgunarbáta. Myndin var gefin út af Myndbanka sjómanna árið 1995.

Bréfi þessu fylgir einnig veggspjald um leiðbeiningar í stöðugleika þilfarsbáta. Það er ósk mín að veggspjaldið verði sett upp á áberandi stað í bátum ykkar. Spjaldið sýnir á einfaldan hátt hvernig staðsetning og fyrirkomulag afla og veiðarfæra getur haft áhrif á stöðugleika bátsins.

Það er von mín og verkefnisstjórnar áætlunar um öryggi sjófarenda að fræðsluefnið komi áhöfnum skipa og smábáta í góðar þarfir. Markmiðið er að efnið leiðbeini um hvernig megi stuðla að fækkun óhappa og slysa til sjós og tryggja rétt og skjót viðbrögð við slysum.

Með bestu kveðjum.

___________________

Sturla Böðvarsson,

samgönguráðherra.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta