Hoppa yfir valmynd
9. desember 2004 Forsætisráðuneytið

Norrænir samstarfsráðherrar funda í Reykjavík

Fréttatilkynning

Reykjavík, 9. desember 2004

Norrænir samstarfsráðherrar funda í Reykjavík

Formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni lýkur um næstu áramót. Valgerður Sverrisdóttir samstarfsráðherra stýrir síðasta samstarfsráðherrafundi formennskuársins í Reykjavík föstudaginn 10. desember. Danir leiða norrænt samstarf árið 2005 og munu þeir á fundinum kynna helstu áherslumál formennskuáætlunar sinnar. Á fundinum stendur meðal annars til að samþykkja formlega að sett verði á laggirnar nýtt norrænt rannsóknarsetur, NordForsk, en því er ætlað að samstilla norræna krafta á sviði rannsókna og vísinda. Stofnun NordForsk er beintengd stofnun Nordisk Innovationscenter - NICe (Norræna nýsköpunarmiðstöðin), sem tók til starfa fyrir tæpu ári. Í framtíðinni er ætlunin að rannsókna- og nýsköpunarsamstarf á Norðurlöndum fari fram í tveggja stoða kerfi þar sem systurstofnanirnar tvær sjá um hvorn sinn þáttinn, rannsóknir og nýsköpun, en mikið er lagt upp úr samþættingu þarna á milli. Takmarkið með NordForsk og NICe er að gera Norðurlönd að framúrskarandi svæði rannsókna og nýsköpunar í Evrópu. Fyrir fundi samstarfsráðherranna liggur einnig að samþykkja nýja stefnumótun um samstarf við Eistland, Lettland og Litháen annars vegar og Rússland hins vegar. Horfið verður frá samstarfsverkefnum sem einkennast af þróunaraðstoð Norðurlanda við grannsvæðin og þess í stað tekið upp samstarf á jafnræðisgrunni. Á næstu misserum hyggst Norræna ráðherranefndin renna styrkari stoðum undir samstarf sitt við Evrópusambandið sem og önnur fjölþjóðleg samtök sem starfa í norðanverðri Evrópu, svo sem Eystrasaltsráðið, Barentsráðið og Norðurskautsráðið. Áhersla á samstarf við Rússland verður aukin til muna, og mótuð verður sérstök Rússlandsáætlun í norrænu samstarfi.

Fundurinn verður haldinn á Hótel Sögu, föstudaginn 10. desember og lýkur honum kl. 12:00 á hádegi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta