Bylting í röntgenrannsóknum á LSH
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, tók í dag formlega í notkun nýtt og mjög öflugt segulómtæki á röntgendeild Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Nýja tækið leysir af hólmi annað, 13 ára gamalt, sem orðið er úrelt. Það verður því mikil bylting í þessari þjónustu á spítalanum. Með nýja segulómtækinu stígur LSH stórt skref sem hátæknispítali og háskólasjúkrahús. Væntingar innan spítalans eru miklar, en í útboði fyrir þessi tækjakaup er gert ráð fyrir kaupum á öðru sambærilegu tæki sem ætlaður er staður á Landspítala Hringbraut. Því tæki er ætlað að vera rannsóknatæki vegna þjónustu LSH við börn, krabbameinsjúka og ýmsa fleiri sjúklingahópa. Segulómtækið nýja er af gerðinni Magnetom Avanto, framleitt af Siemens í Þýskalandi. Heildarkostnaður við það, með fylgibúnaði, nemur um 150 milljónum króna en það er tekið á leigu til 7 ára. Tækið er á G-3 í Fossvogi, í nýrri byggingu sem var reist bakvið slysa- og bráðadeild.