Hoppa yfir valmynd
14. desember 2004 Utanríkisráðuneytið

Ráðsfundur Evrópska efnahagssvæðisins í Brussel



Í dag var haldinn í Brussel 22. ráðsfundur Evrópska efnahagssvæðisins. Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, stýrði fundinum í fjarveru Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, en Ísland lýkur formennsku í ráðinu um áramót. EES-ráðið er samráðsvettvangur utanríkisráðherra EES-ríkjanna, þ.e. EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins.

Fundurinn hófst á umræðum ráðherranna um horfur í Mið-Austurlöndum. Einnig var rætt um samvinnu við Afríkusambandið á sviði öryggismála, samskiptin við Rússland og þróun mála í Úkraínu.

Að því búnu var fjallað um framkvæmd EES-samningsins og voru ráðherrarnir sammála um að rekstur samningsins gengi vel. Í tengslum við svonefnda Lissabonáætlun Evrópusambandsins bentu EFTA-ríkin á að hagvöxtur í EFTA-ríkjunum innan EES væri góður, atvinnuleysi lágt og atvinnuþátttaka kvenna há. Evrópusambandið leggur nú um stundir mikla áherslu á ná fram markmiðum áætlunarinnar á þessum sviðum í aðildarríkjum sínum fyrir árið 2010.

Lýstu EFTA-ríkin yfir ánægju með áform framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að aflétta banni á notkun fiskimjöls í fóðri en þar hefur Ísland mikilla hagsmuna að gæta. Var Evrópusambandið hvatt til að aflétta banninu eins fljótt og auðið er enda liggja engar vísindalegar sannanir fyrir um að notkun fiskimjöls í fóðri geti valdið heilsutjóni.

Þá lýstu ráðherrarnir yfir ánægju með að aðild EFTA-ríkjanna að Evrópsku flugöryggisstofnuninni (EASA) væri í höfn, en ríkin samþykktu nú á dögunum ákvörðun þess efnis að stofnunin yrði hluti af EES-samningnum. Áréttuðu EFTA-ríkin mikilvægi þess að gagnkvæmni ríkti um gerð loftferðasamninga við önnur ríki. Með því yrði flugfélögum með staðfestu í EFTA-ríkjunum tryggður sami aðgangur að hinum sameiginlega innri markaði og flugfélögum aðildarríkja Evrópusambandsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta