Landvistarleyfi Robert Fischer
Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi var í dag boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu vegna máls Roberts James Fischer, fyrrum heimsmeistara í skák.
Sendiherranum var tjáð að boð íslenskra stjórnvalda til Fischers stæði. Fischer hefði unnið heimsmeistaratitil sinn í frækilegu einvígi á Íslandi 1972. Frá þeim tíma hefði hann, sem skákmeistari, notið mikils álits á Íslandi. Sjálfsagt væri honum um það kunnugt og þess vegna í vandræðum sínum kosið að leita til Íslendinga. Með því að vísa ekki þessari beiðni á bug væri Ísland eingöngu að bregðast við með vísun til sögulegra tengsla við skákmanninn. Forsenda ákvörðunar stjórnvalda hefði verið sú að bandarísk stjórnvöld hefðu ekki krafist framsals Fischers frá Japan. Einnig var útskýrt að brot gegn viðskiptabanni á fyrrverandi Júgóslavíu væru fyrnd samkvæmt íslenskum lögum og uppfylli að því leyti ekki skilyrði til framsals.