Almennar upplýsingar um meðferð og sölu skotelda
Meðferð skotelda
Mikilvægt er að hafa í huga að skoteldar eru hættuleg vara sem ber að nota með ítrustu varúð. Mikilvægt er að lesa vandlega leiðbeiningar sem fylgja þeim og tryggja að þeir séu geymdir á öruggum stað. Öryggisins vegna er brýnt að nota öryggisgleraugu og hanska við notkun þeirra. Þá er mikilvægt að verða sér út um skothólk til þess að skorða af flugelda (rakettur). Þegar um skotkökur eða blys er að ræða er nauðsynlegt að velja sér opið svæði með sléttu og stöðugu undirlagi.
Notkun og sala
Almenn notkun og sala á skoteldum til almennings er einungis heimil á tímabilinu 28 desember til 6. janúar að báðum dögum meðtöldum. Á þessu tímabili er meðferð þeirra bönnuð frá miðnætti til kl. 9.00 að undanskilinni nýársnótt.
Aldursmörk
Bannað er að selja eða afhenda skotelda barni yngra en 16 ára sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum. Í viðauka reglugerðar sem unnt er að nálgast í tengli hér að neðan, eru tilgreindir þeir skoteldar sem eru án aldurstakmarkana notenda. Má þar sem dæmi nefna stjörnuljós, knall, borðsprengju og hvellkúlu. Þó er öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára óheimil og öll meðferð barna á þeim skal vera undir eftirliti fullorðinna.
Hvar má nota skotelda
Á grundvelli öryggissjónarmiða er notkun flugelda (rakettur) og annarra skotelda bönnuð við brennu og í næsta nágrenni við hana. Þar er einungis heimilt að nota stjörnuljós og blys, en þó ekki skotblys. Þá má ekki nota flugelda innan 100 metra frá mannvirkjum sem gerð eru úr sérstaklega eldfimum efnum, eða stöðum þar sem eldfim efni eru geymd. Þá eru einnig settar ýmsar takmarkanir varðandi notkun flugelda í nágrenni skóglendis og viðkvæms gróðurs. Almenn notkun skotelda á lóðum elliheimila og sjúkrahósa er bönnuð auk þess sem sérstakt tillit skal taka til dýra við meðferð þeirra og við gripahús er notkun þeirra einnig bönnuð.
Skoteldasýningar
Það eru lögreglustjórar sem veita sérstök leyfi til þess konar sýninga. Útgáfa leyfis er bundin því skilyrði að ákveðinn aðili hafi umsjón með sýningunni og að sérstakur skotstjóri annist framkvæmd hennar. Fyrir slíkri sýningu þarf einnig leyfi frá heilbrigðisnefnd viðkomandi umdæmis. Við framkvæmd skoteldasýninga gilda ýmsar öryggisreglur sem ætlað er að tryggja öryggi áhorfenda og einnig þeirra er standa að sýningunni. Að lokinni sýningu skal fjarlægja notaða skotelda með varúð.
Hvaða skoteldar eru ætlaðir til sölu til almennings
Í reglugerð um skotelda er byggt á ákveðinni flokkun er miðast við hættueiginleika hvers skotelds fyrir sig. Þannig er öll sala til almennings á tívolíbombum og kínverjum stranglega bönnuð auk þess sem ýmsar takmarkanir eru gerðar á þeirri stærð þeirra skotelda sem heimilt er að selja til almennings. T.a.m. er óheimilt að selja almenningi skotblys með hólkvídd meiri en 1,5 tomma að innanmáli, skotkökum með meiri hólkvídd en 2 tommur að innanmáli og yfir 25 kg að þyngd. Þá er sala bönnuð á flugeldum með meira þvermál en 80 mm að utanmáli. Nánari tilgreiningu á flokkuninni er að finna í viðauka með ofangreindri reglugerð. Framangreindir skoteldar eru einungis til notkunar á flugeldasýningum í umsjá sérfræðinga á sviði skotelda sem hafa hlotið viðurkenningu sem skotstjórar.