Drög að frumvarpi til laga um skipan ferðamála
Ráðuneytið óskar eftir umsögnum almennings og þeirra sem telja sig málið varða við breytingartillögum um skipan ferðamála. Er þess óskað að umsagnir verði sendar fyrir 28. janúar 2005 á netfangið [email protected]
Hjá samgönguráðuneytinu hefur verið unnið að frumvarpi til laga um skipan ferðamála, sem ætlað er að koma í stað laga nr. 117/1994 og laga nr. 80/1994 um alferðir.
Megintilgangur þess er tvíþættur, annars vegar breytingar varðandi stjórnsýslu þessara mála með stofnun sérstakrar stofnunar og færa þangað leyfisveitingar og annað sem þeim tengist, hins vegar að einfalda leyfisveitingar og tryggingamál ferðaskrifstofa.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sameinaðar verði núgildandi reglur um skipan ferðamála og alferðir í einn lagabálk og er gert ráð fyrir sérstakri reglugerðarheimild um skyldur og ábyrgð þeirra sem selja alferðir, þar sem meginefni núgildandi alferðalaga verði tekin upp.
Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru eftirfarandi:
- Stofnun Ferðamálastofu sem fer með framkvæmd ferðamála.
- Breytt hlutverk Ferðamálaráðs og aðskilnaður milli ráðsins og Ferðamálastofu.
- Flutningur leyfisveitinga og stjórnsýsla því tengdu til Ferðamálastofu.
- Breytingar á fyrirkomulagi leyfisveitinga og skilyrðum fyrir leyfi í þeim tilgangi að gera ferlið skýrara og einfaldara.
- Skylda leyfishafa til að hafa starfsábyrgðartryggingu, sem jafnframt því að vera gjaldþrotatrygging eins og núverandi lög mæla fyrir um, bætir viðskiptavinum almennt fjártjón vegna vanefnda á samningi.
- Skýrari reglur um brottfall leyfis og afleiðingar þess.
- Skýrari reglugerðarheimildir.
- Málskotsréttur vegna stjórnsýsluákvarðanna á grundvelli laganna.
- Skýrari ákvæði um úrræði vegna brota á lögunum.
Drög að frumvarpinu og skýringar er að finna hér (WORD - 65KB)
Ráðuneytið óskar eftir umsögnum almennings og þeirra sem telja sig málið varða við breytingartillögum og er þess óskað að umsagnir verði sendar fyrir 28. janúar 2005 á netfangið [email protected]