Flóðbylgja við Indlandshaf
Flóðbylgja skall á lönd við Indlandshaf í nótt. Þau svæði sem verst urðu úti eru Sri Lanka, Indland, Maldavíeyjar, Súmatra og eyjan Phuket við Taíland. Á þessari stundu hefur utanríkisráðuneytið ekki upplýsingar um að íslenskir ríkisborgarar séu meðal látinna eða slasaðra.
Í utanríksiráðuneytinu er starfandi neyðarvakt þar sem tekið er við upplýsingum um Íslendinga sem vitað er til að eru á þessu svæði og ekki hefur náðst til. Símanúmer neyðarvaktarinnar er 545 9900.
Þeim tilmælum er beint til Íslendinga sem eru á þessu svæði að láta aðstandendur á Íslandi vita af sér. Ef símkerfi á viðkomandi svæði er óvirkt er bent á að senda upplýsingar með tölvupósti. Hægt er að senda upplýsingar á netfang ráðuneytisins [email protected] og mun ráðuneytið þá koma upplýsingum til aðstandenda.