Aðstoð til stjórnvalda í Svíþjóð og Noregi vegna náttúruhamfara í Asíu
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, átti í dag samtöl við Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra Noregs, vegna náttúruhamfaranna í Asíu. Halldór vottaði þá persónulega samúð sína til forsætisráðherranna vegna þeirra Norðmanna og Svía sem létust í náttúrhamförunum og kom á framfæri samúðarkveðjum frá íslensku þjóðinni. Skýrði hann forsætisráðherrunum frá því að hugur Íslendinga væri hjá frændum vorum á stundu sem þessari. Báru forsætisráðherrarnir þrír saman bækur sínar um ástandið á hamfaraslóðum þar sem enn er fjölmargra saknað og tala látinna hækkar stöðugt.
Jafnframt bauð Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, fram aðstoð við að koma slösuðum Norðmönnum og Svíum frá Asíu og á heimaslóðir, eða á sjúkrahús á Íslandi. Hefur í því skyni verið tryggð flugvél frá Icelandair sem er til taks á Keflavíkurflugvelli, ásamt því sem íslenskt heilbrigðisstarfsfólk er reiðubúið til að bregðast við kallinu og hlynna að þeim slösuðu meðan á fluginu stendur. Forsætisráðherrar Noregs og Svíþjóðar þökkuðu innilega fyrir þetta boð stjórnvalda og er aðstoð Íslendinga til skoðunar hjá þarlendum stjórnvöldum.
Í Reykjavík, 30. desember 2004.