Skipan stjórnarskrárnefndar
Forsætisráðherra hefur skipað Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem formann stjórnarskrárnefndar, sem hefur það hlutverk að endurskoða Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Geir H. Haarde fjármálaráðherra verður varaformaður nefndarinnar.
Í fyrra mánuði óskaði forsætisráðherra eftir tilnefningum þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi í níu manna stjórnarskrárnefnd og á grundvelli þeirra tilnefninga sem hafa borist hafa eftirtaldir verið skipaðir í stjórnarskrárnefnd.
Jón Kristjánsson heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Jónína Bjartmarz, samkvæmt tilnefningu Framsóknarflokksins. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Þorsteinn Pálsson sendiherra og Birgir Ármannsson alþingismaður, samkvæmt tilnefningu Sjálfstæðisflokksins, Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir varaformaður Samfylkingarinnar, samkvæmt tilnefningu Samfylkingarinnar, Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, samkvæmt tilnefningu Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Guðjón A. Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins, samkvæmt tilnefningu Frjálslynda flokksins.
Að auki mun fjögurra manna sérfræðinganefnd starfa náið með stjórnarskrárnefndinni, en formaður hennar er Eiríkur Tómasson, lagaprófessor. Aðrir í sérfræðinganefndinni eru Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði og Björg Thorarensen lagaprófessor.
Í skipunarbréfi nefndarinnar kemur m.a. fram að endurskoðunin verði einkum bundin við I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt skuli að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni liggi fyrir svo tímanlega að unnt verði að samþykkja það á Alþingi fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar sem fram eiga að fara vorið 2007. Báðum nefndum er ætlað að hefja störf sín hið fyrsta og ljúka störfum ekki síðar en í byrjun árs 2007.
Í Reykjavík 4. janúar 2005.