Auglýsing um réttindanám og próf til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur falið prófnefnd löggiltra fasteignasala að efna til réttindanáms fyrir þá sem vilja öðlast löggildingu sem fasteigna-, fyrirtækja og skipasalar skv. lögum nr. 99/2004, um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, og reglugerð nr. 837/2004, um námskeið og prófraun til að öðlast löggildingu til sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. Námið hefst 1. febrúar n.k. Umsjón með náminu hefur Endurmenntun Háskóla Íslands.
Námið skiptist í 3 hluta sem kenndir eru á þremur misserum, alls 30 einingar á háskólastigi, og lýkur hverjum hluta með prófum. Heimild til að þreyta próf öðlast þeir er:
- setið hafa námskeið sem haldið er skv. 4. gr. laganna,
- hafa að baki að minnsta kosti tólf mánaða ráðningartíma í fullu starfi hjá löggiltum fasteignasala,
- hafa lokið stúdentsprófi eða hafa sambærilega menntun að mati prófnefndar.
Námið verður því aðeins haldið að næg þátttaka náist. Kostnaður vegna náms og prófa er í heild 550.000 kr. sem skiptist í þrjá hluta og greiðist hver hluti í upphafi hvers misseris.
Umsóknir um þátttöku er að finna á heimasíðu Endurmenntunar HÍ: www.endurmenntun.is og skulu þær berast í síðasta lagi 22. janúar n.k.
Reykjavík, 6. janúar 2005
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið