Neyðarvakt utanríkisráðuneytisins vegna flóðanna við Indlandshaf
Skömmu eftir að fyrstu fréttir bárust af flóðunum við strendur Indlandshafs, að morgni annars dags jóla, var sett á fót neyðarvakt í utanríkisráðuneytinu og tilkynnt í fjölmiðlum að fólk gæti haft samband þangað. Mikið var hringt, bæði til að tilkynna um fólk sem ekki hafði náðst til og einnig til að fá upplýsingar um flóðin og þau svæði sem höfðu orðið verst úti. Alls var tilkynnt um 227 Íslendinga sem talið var að gætu verið á svæðum þar sem hamfarir áttu sér stað. Ráðuneytið var í sambandi við ræðismenn Íslands í Taílandi, Indlandi og Sri Lanka, ferðaskrifstofur sem hugsanlega væru með hópa á sínum vegum á þessum slóðum, Icelandair, ræðismann Taílands á Íslandi, dönsku utanríkisþjónustuna o.fl. Reglulega voru sendir uppfærðir listar til ræðismanna, haft samband við þá sem höfðu tilkynnt um þá sem saknað var og einnig til margra Íslendinga sem staddur voru eða búsettir á umræddum svæðum. Listinn styttist hratt fyrstu tvo dagana og þann 29. desember var hann kominn niður í 10 manns og vísbendingar um að þeir væru allir á svæðum þar sem ekki hafði orðið mannfall vegna flóðanna. Ákveðið var í samráði við aðstandendur þeirra sem saknað var að gefa ekki upp nöfn þeirra, enda nokkuð ljóst að þeir væru ekki á hættusvæði. Þann 5. janúar bárust þær fregnir að sá síðasti sem var á listanum hafði haft samband við ættingja sína og var þá heill á húfi.
Neyðarvakt ráðuneytisins var opin allan sólarhringinn frá hádegi 26. desember til morguns 3. janúar og störfuðu að jafnaði fimm starfsmenn ráðuneytisins að verkefninu þá daga.
Ráðuneytið vill þakka þeim fjölmörgu sem höfðu samband og aðstoðuðu við að hafa uppi á þeim Íslendingum sem leitað var að.