Forgagnsröðun í útvarpi
Rás 1 Ríkisútvarpsins sendir í janúar út þætti undir heitinu Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Byggjast þættirnir á umræðum á ráðstefnu Heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
Ráðstefnan sem haldin var nyrðra um miðjan nóvember sl. bar yfirskriftina “Forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu – hvert leiðir hún varðandi kostnað, réttindi sjúklinga og einkavæðingu?”, og voru þar flutt tuttugu mismunandi erindi um málefnið.
Í fyrsta þætti, laugardaginn, 8. janúar, kl. 10.15, munu reifa sín sjónarmið þeir Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, Halldór Jónsson, forstjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, Matthías Halldórsson, aðstoðarlandlæknir og Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands.
Í öðrum þætti, sem verður sendur út 15. janúar, viðra sínar skoðanir þeir Þórólfur Matthíasson, prófessor við Háskóla Íslands, Kristján Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, og Ásgeir Baldurs hjá Vátryggingafélagi Íslands og núverandi framkvæmdastjóri Varðar vátryggingafélags.
Í þriðja þættinum, sem verður sendur út 22. janúar, koma fram sjónarmið þeirra Steinunnar Friðriksdóttur, formanns Styrks – samtaka krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra, Erlu Óskar Ásgeirsdóttur, hjá SÍBS – Sambandi íslenskra berkla- og brjótsholssjúklinga, Emils Thoroddsen, formanns Gigtarfélags Íslands og Sveins Magnússonar, framkvæmdastjóra Geðhjálpar.
Í fjórða og síðasta þættinum, sem verður sendur út 29. janúar nk., verður síðan gerð grein fyrir sjónarmiðum fulltrúa stjórnmálaflokkanna.
Jón_Kristjánsson_-_Ávarp_á ráðstefnu um forgangsröðun